Skoðun

Sjálfstæðir fjölmiðlar eru ekki sjálfsagðir

Arnþrúður Karlsdóttir, Orri Hauksson, Ingvi Hrafn Jónsson og Sævar Freyr Þráinsson og Rakel Sveinsdóttir skrifa
Frjáls fjölmiðlun í ljósvaka á 90 ára afmæli í ár. Ottó B. Arnar símfræðingur stóð að félagi um útvarpsstöðina H.f. Útvarp, sem hefði getað fagnað afmælinu í ár ef hún hefði ekki orðið gjaldþrota árið 1928. Fyrsta frumvarp um útvarpsrekstur var samþykkt frá Alþingi sama ár og hið nýja félag fékk aðstöðu í Loftskeytastöðinni á Melum til útsendinga fjórum árum á undan Ríkisútvarpinu.

Gjaldþrotið varð sökum þess að Alþingi hafnaði beiðni um einkasölu á viðtækjum til að standa undir rekstri. Alþingi setti nokkrum árum síðar lög um útvarp í ríkiseigu og skyldi rekstur þess fjármagnaður að hluta með viðtækjasölu.

Í millitíðinni hafði reyndar annað einkafyrirtæki hafið rekstur norður á Akureyri. Arthur Gook, trúboði í söfnuðinum á Sjónarhæð, hóf útsendingar trúarlegs útvarps í árslok 1927. Eitthvað virðist hið trúarlega útvarp hafa farið út af sporinu því atvinnumálaráðherra hafnaði beiðni um að framlengja leyfi þess árið 1929 með því fororði að það hefði ekki haft leyfi til reksturs „gaman-útvarps“.

Ríkisútvarpið var stofnað í kjölfar þessara tilrauna einkaaðila og hóf útsendingar í skugga heimskreppu árið 1930. Íslenska ríkið var með einkarétt á útsendingum útvarps allt þar til Bylgjan hóf útsendingar 28. ágúst 1986 í kjölfar setningar nýrra útvarpslaga þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildar Helgadóttur. Þessi lög urðu ekki til í tómarúmi en í verkfalli opinberra starfsmanna árið 1984 lokuðust útvarps- og sjónvarpsstöðvar ríkisins. Einkaaðilar stigu þá fram og sýndu fram á tímaskekkju þess að þeim væri bannað að senda frá sér efni á öldum ljósvakans.

Fæstir sakna einkaleyfis Ríkisútvarpsins og þótt ríflega 70 prósent landsmanna horfi eða hlusti á RÚV á hverjum degi horfa nú ríflega 73 prósent þeirra einnig á einkarekna ljósvakamiðla á hverjum degi.

Fjölmiðlar eru í stöðugri þróun. Það þarf lagaumhverfið líka að vera. Íslenskur fjölmiðlamarkaður er ekki eyland. Erlendir miðlar sækja okkur heim án þess að greiða hér skatta eða gjöld. Kvaðir sem settar eru á innlenda miðla ná ekki til þeirra. Auglýsingatekjur renna í auknum mæli úr landi og stór hluti þeirra til ríkisins í gegnum Ríkisútvarpið.

Í kvöld ætlum við að minna notendur ljósvakamiðla á gamla tíma með því að slökkva á útsendingum frjálsra stöðva í 7 mínútur klukkan 21. Með því viljum við minna á að tilvist innlendra sjálfstæðra fjölmiðla er ekki sjálfsagður hluti af tilverunni. Það er komið að Alþingi að gera nauðsynlegar og tímabærar breytingar á löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Við biðjum um sanngjarnt rekstrarumhverfi og andrými, þannig að fjölbreyttir íslenskir miðlar geti blómstrað, samhliða ríkisstyrktum fjölmiðli, erlendri samkeppni og nýrri tækni.



Arnþrúður Karlsdóttir, fyrir hönd Útvarps Sögu

Ingvi Hrafn Jónsson, fyrir hönd ÍNN

Orri Hauksson, fyrir hönd Símans

Rakel Sveinsdóttir, fyrir hönd miðla Hringbrautar

Sævar Freyr Þráinsson, fyrir hönd 365 miðla


Tengdar fréttir

Áskorun um gerð lagabreytinga

Undirrituð félög skora á ráðherra og Alþingi að gera nauðsynlegar og tímabærar breytingar á löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði.




Skoðun

Sjá meira


×