Erlent

Bandaríkin fallast á bótagreiðslu vegna drónaárásar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa samþykkt að greiða fjölskyldu ítalsks hjálparstarfsmanns, sem féll í flugskeytaárás Bandaríkjamanna í Pakistan í fyrra, eina milljón evra, eða tæplega 130 milljónir króna í bætur. Það er í fyrsta skipti sem Bandaríkin samþykkja bótagreiðslu af þessu tagi.

Tveir létu lífið í árásinni, hinn ítalski Giovanni Lo Porto, og Warren Weinstein frá Bandaríkjunum, en þeir höfðu verið í haldi vígamanna al-Kaída samtakanna í ríflega tvö ár. Guardian greinir frá því að yfirvöld í Bandaríkjunum hafi talið fjölskyldunum trú um að mönnunum tveimur yrði sleppt úr haldi, einum mánuði áður en flugskeytaárásin var gerð.

Barack Obama Bandaríkjaforseti baðst í kjölfarið afsökunar á árásinni, en stærði sig á sama tíma af því að bandarísk stjórnvöld hefðu brugðist við með því að greina opinskátt frá því sem gerðist.

Ítalskir fjölmiðlar greina frá bótagreiðslunum, en ekki er vitað hvort bandarísk stjórnvöld hyggist greiða fjölskyldu Weinstein einhverjar bætur.

Árás Bandaríkjamanna var gerð út á dróna, eða mannlausu flygildi líkt og þeim sem Bandaríkin hafa notað í stórum stíl undanfarin ár til árása á hryðjuverkamenn í Pakistan og víðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×