Erlent

Flóttamannabúðir í París rýmdar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá rýmingu flóttamannabúða í síðasta mánuði.
Frá rýmingu flóttamannabúða í síðasta mánuði. vísir/epa
Lögregluyfirvöld í París í Frakklandi rýmdu í dag tjaldbúðir í norðurhluta borgarinnar þar sem ríflega 1.500 flóttamenn hafa haldið til við bágar aðstæður að undanförnu. Um er að ræða fólk frá Afganistan, Súdan og Erítreu sem ferðast hafði til Frakklands í þeirri von um að fá aðsetur í Bretlandi í kjölfarið.

Rýming flóttamannabúðanna hófst við dögun og var fólk flutt í skýli skammt frá, þar sem það fær að dvelja tímabundið. Að sögn Emmanuelle Cosse, húsnæðismálaráðherra Frakklands, voru óvenju margar fjölskyldur með börn í tjaldbúðunum, en hann fullyrðir að þeim verði veitt viðeigandi aðstoð. Þá fái allir mat og heilbrigðisaðstoð.

Franska lögreglan hefur ráðist í nokkrar aðgerðir sem þessar, en flóttamenn hafa komið upp tjaldbúðum víða um landið á síðustu mánuðum. Síðast í júlí voru tjaldbúðir 2.500 flóttamanna í París rýmdar.

Mörg þúsund flóttamenn hafa lagt leið sína til Frakklands síðustu átján mánuði og reynt að komast þaðan til annarra landa, þá einna helst Bretlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×