Enski boltinn

Kane skaut Tottenham upp í 3. sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tottenham lyfti sér upp í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 1-0 sigri á Sunderland í lokaleik 5. umferðar í dag.

Harry Kane skoraði eina mark leiksins en hann virðist vera kominn í gang að nýju eftir markaþurrð framan af tímabili.

Tottenham var miklu sterkari aðilinn í leiknum, var 72% með boltann og átti 29 skot að marki Sunderland, þar af 19 í fyrri hálfleik. En markið lét á sér standa.

Það kom loks á 59. mínútu. Kane skoraði þá af stuttu færi eftir fyrirgjöf Kyles Walker frá hægri og skalla Dele Alli fyrir markið.

Fleiri urðu mörkin ekki en Adnan Januzaj, leikmaður Sunderland, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á lokamínútu leiksins.

Sunderland er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með einungis eitt stig eftir fyrstu fimm umferðirnar. Það stefnir því erfiðan vetur hjá David Moyes og lærisveinum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×