Enski boltinn

Dýrlingarnir unnu sinn fyrsta sigur gegn Gylfa og félögum | Ekkert gengur hjá Stoke

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vonbrigði Gylfa leyndu sér ekki.
Vonbrigði Gylfa leyndu sér ekki. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson var á sínum stað í byrjunarliði Swansea City sem sótti Southampton heim í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Aðeins eitt mark var skorað í leiknum en það gerði Charlie Austin fyrir Southampton á 64. mínútu, 10 mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Gylfi lék allan leikinn en tókst ekki að skora, frekar en öðrum leikmönnum Swansea.

Þetta var fyrsti sigur Southampton á tímabilinu en hann skilar liðinu upp í 14. sæti deildarinnar. Swansea er í sætinu fyrir neðan en Gylfi og félagar hafa aðeins unnið einn af fyrstu fimm leikjum sínum á tímabilinu.

Leikmenn Stoke réðu lítið við Andros Townsend í leiknum í dag.vísir/getty
Það gengur hvorki né rekur hjá Stoke City en liðið steinlá, 4-1, fyrir Crystal Palace á Selhurst Park í dag.

Þetta er í þriðja sinn á tímabilinu sem Stoke fær á sig fjögur mörk í leik. Alls hefur Stoke fengið á sig 14 mörk í fyrstu fimm leikjum tímabilsins sem er það mesta í úrvalsdeildinni.

Stoke er í tuttugasta og neðsta sæti deildarinnar. Palace er aftur á móti komið upp í 8. sætið eftir tvo sigra í röð.

Tvö fyrstu mörkin komu eftir föst leikatriði. James Tomkins kom Palace yfir á 9. mínútu þegar hann stýrði aukaspyrnu Andros Townsend í netið og tveimur mínútum síðar skallaði Scott Dann hornspyrnu Jasons Puncheon framhjá varnarlausum Shay Given í marki Stoke.

Þriðja markið kom á 71. mínútu en það gerði James McArthur. Hann átti þá skot sem fór af Geoff Cameron, varnarmanni Stoke, og í netið. Þremur mínútum síðar skoraði Townsend svo fjórða og fallegasta mark leiksins. Hann lék þá upp vinstri kantinn og þrumaði svo boltanum framhjá Given af tæplega 20 metra færi.

Austurríkismaðurinn Marko Arnautovic lagaði stöðuna fyrir Stoke í uppbótartíma en það breytti engu um niðurstöðuna. Lokatölur 4-1, Palace í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×