Enski boltinn

Frábær sigur Liverpool á Brúnni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool lyfti sér upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sterkum útisigri, 1-2, á Chelsea í fyrsta leik 5. umferðar í kvöld.

Lærisveinar Jürgens Klopp hafa náð í 10 stig í fyrstu fimm leikjunum en þeir hafa unnið Arsenal, Englandsmeistara Leicester City og nú síðast Chelsea.

Dejan Lovren kom Liverpool yfir á 19. mínútu með sínu fyrsta deildarmarki síðan í janúar 2014. Jordan Henderson tvöfaldaði svo forskotið með frábæru skoti á 36. mínútu. Fyrirliðinn fékk boltann fyrir utan vítateiginn vinstra megin og smurði hann í skeytin fjær.

Chelsea komst betur inn í leikinn í seinni hálfleik og Diego Costa minnkaði muninn í 1-2 á 61. mínútu eftir góðan undirbúning Nemanja Matic. Þetta var fimmta mark Costa í úrvalsdeildinni í vetur.

Þrátt fyrir þunga sókn síðasta hálftímann tókst Chelsea ekki að jafna metin og Liverpool fagnaði stigunum þremur. Lokatölur 1-2, Liverpool í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×