Erlent

Diane James tekur við leiðtogaembættinu af Farage

Atli Ísleifsson skrifar
Nigel Farage og Diane James í dag.
Nigel Farage og Diane James í dag. Vísir/AFP
Evrópuþingmaðurinn Diane James mun taka við leiðtogaembættinu í Sjálfstæðisflokki Bretlands (UKIP) af Nigel Farage. Þetta kemur fram á vef AFP.

Kosning flokksmanna um nýjan formann hefur staðið yfir á síðustu dögum, en James hlaut rúmlega 8.400 atkvæði í kjörinu en Lisa Duffy var næst með um 4.600 atkvæði. Alls voru fimm í framboði.

Farage tók fyrst við leiðtogaembættinu í flokknum árið 2006 og hefur gengt því nær óslitið síðan, en frá er talið tímabil frá nóvember 2009 til nóvember 2010.

Farage greindi frá því hálfum mánuði eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um framtíð Bretlands innan ESB að hann hugðist láta af forsmannsembætti í flokknum þar sem takmarki hans hafi verið náð.

Hin 56 ára James er ein fjögurra þingmanna UKIP á Evrópuþinginu þar sem hún tók sæti eftir kosningarnar 2014. Hún hafði áður tekið þátt í sveitarstjórnarmálum í Waverley Borough í Surrey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×