Erlent

Litli drengurinn í Ohio kominn til frænku sinnar í Kaliforníu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndirnar sem birtar voru en búið er að gera andlit barnsins óþekkjanlegt.
Myndirnar sem birtar voru en búið er að gera andlit barnsins óþekkjanlegt.
Fjögurra ára drengur sem myndaður var í smábænum East Liverpool í Ohio í síðustu viku þar sem hann sat í aftursæti bíls með ömmu sinni og manni sem bæði voru meðvitundarlaus vegna heróínneyslu er kominn í umsjá frænku sinnar og frænda í Kaliforníu.

Drengurinn var á forræði ömmu sinnar sem var með hann í bílnum en hún er nú í fangelsi og hefur verið kærð fyrir að stofna lífi barns í hættu og að vera undir áhrifum fíkniefna á almannafæri. Amman hafði fengið forræði yfir honum aðeins sex vikum áður en hún var handtekin í liðinni viku. Maðurinn sem var með drengnum og ömmu hans í bílnum var við stýrið og var nálægt því að keyra á skólabíl rétt áður en lögreglan kom á staðinn og tók myndir sem síðan voru settar á Facebook-síðu lögregluyfirvalda í East Liverpool.

Myndbirtingin vakti hörð viðbrögð enda var andlit drengsins ekki „blörrað“, og reyndar andlit fullorðna fólksins ekki heldur. Lögreglan sagði myndina birta til þess að varpa ljósi á umfangsmikinn fíkniefndavanda í Ohio en yfir þrjú þúsund manns létu lífið af völdum of stórs skammts á síðasta ári. Vildu yfirvöld í ríkinu því senda skilaboð til að upplýsa hve stórt vandamálið er.

Ekki eru þó allir sáttir við það að myndin skuli hafa verið birt með þessum hætti, ekki síst drengsins vegna.

„Yfirvöld í East Liverpool niðurlögðu fjölskylduna mína og niðurlögðu þennan litla dreng,“ segir ömmusystir stráksins í samtali við NBC.

„Þeir hefðu getað „blörrað“ andlitið hans en þeir gerðu það ekki og núna eru þeir að taka hann af systur minni. Ég ætla ekki að réttlæta það sem hún gerði en það sem þeir gerðu henni og barnabarni hennar er of mikið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×