Erlent

Fyrrum læknir í Auschwitz fyrir dóm

Anton Egilsson skrifar
Hubert Zafke var ekið í hjólastól inn í dómssal.
Hubert Zafke var ekið í hjólastól inn í dómssal. Vísir/AFP
Hinn 95 ára gamli Hubert Zafke var leiddur fyrir rétt í Neubrandenburg í Þýskalandi í dag en hann er sagður hafa átt þátt í dauða um 3.600 manns í Auschwitz, stærstu fanga- og útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Alls er talið að nasistar hafi drepið rúmlega milljón manns í Auschwitz búðunum en þar voru gyðingar í stórum hluta.

Zafke starfaði sem læknir í Auschwitz búðunum á mánaðartímabili árið 1944 en þá eiga umrædd dráp að hafa átt sér stað.  Á meðan Zafke var við störf í Auschwitz var hin hollenska Anna Frank þar í ánauð. Hún er hvað þekktust fyrir dagbók sem hún hélt meðan hún var í felum í Amsterdam, þegar Holland var hernumið af Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni.

Í þrígang hefur Zafke verið boðaður til fyrirtöku í málinu en því hefur ávallt verið frestað sökum slæms heilsufars hans. Sama var upp á teningnum í dag en ákæra var þó lesin á hendur honum áður en réttarhöldunum var frestað fram í næstu viku. Zafke neitar öllum sökum í málinu en hann segist einungis hafa meðhöndlað særða hermenn meðan á dvöl hans stóð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×