Enski boltinn

Segir að enginn megi vanmeta mikilvægi Gylfa Þórs hjá Swansea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var allt í öllu hjá Swansea þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Chelsea á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Í stöðunni 1-0 fyrir gestina frá Lundúnum fiskaði Gylfi Þór vítaspyrnu með miklum dugnaði og skoraði úr henni sjálfur framhjá Thibaut Cortois, belgíska landsliðsmarkverðinum hjá Chelsea.

Gylfi fær sjö í einkunn hjá staðarblaðinu Wales Online fyrir frammistöðu sína, einum minna en markvörðurinn Lukasz Fabianski sem hafði nóg að gera og stóð sig vel þrátt fyrir að hirða boltann tvívegis úr netinu.

„Hann gerði sitt besta til að hafa áhrif á leikinn og virtist eini maðurinn sem gat tengt spil liðsins áður en hann fiskaði svo víti sem skipti miklu máli,“ segir í umsögn um frammistöðu Gylfa Þórs.

Gylfi Þór dansar framhjá Oscari í leiknum gegn Chelsea.vísir/getty
Slær met

Hafnfirðingurinn er aðalmaðurinn hjá Swansea en hann kaus að gera nýjan fjögurra ára samning við velska liðið þrátt fyrir ríflega 20 milljóna punda tilboð Everton í sumar. Með markinu í gær varð Gylfi að markahæsta leikmanni Swansea í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi.

Hann fór upp fyrir Fílabeinsstrendinginn Wilfried Bony með sínu 26. marki fyrir Swansea en að skora svona mikið af miðjunni er mikið afrek. Á eftir Bony með 25 mörk er svo spænski framherjinn Michu með 20 mörk.

„Gylfi Sigurðsson setur met“ er eitt af því sem Wales Online skrifar þegar fimm atriði um leikinn eru tekin saman. Þar segir að markið sem Gylfi skoraði hafi ekki verið eitt af hans flottustu en að hann hafi verið ískaldur á punktinum.

Gert er mikið úr mikilvægi Gylfa hjá Swansea sem hélt liðinu upp í ensku úrvalsdeildinni nánast einn síns liðs eftir áramót með níu mörkum.

„Hann var allstaðar enn á ný fyrir Swansea-liðið aðeins skömmu eftir að hann lýsti því yfir hversu miklu máli það skiptir hann að vera hluti af þessu verkefni á Liberty-vellinum. Það skal enginn nokkurn tíma vanmeta mikilvægi Gylfa Þórs,“ er skrifað um íslenska landsliðsmanninn.


Tengdar fréttir

Gylfi á skotskónum í jafntefli gegn Chelsea

Gylfi Þór kom Swansea aftur inn í leikinn í í 2-2 jafntefli gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag en þetta var fyrsta jafntefli Chelsea í vetur eftir þrjá sigurleiki í röð í upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×