Erlent

Ráðherra kærður vegna kaupa á Panamaskjölum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Panamaskjölin koma frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca.
Panamaskjölin koma frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca. Vísir/AFP
Litlar líkur eru á að skattamálaráðherra Danmerkur, Karsten Lauritzen, verði dreginn fyrir dóm vegna kaupa á gögnum úr svokölluðum Panama-skjölum. Lögfræðingurinn Poul Gudberg segir danska ríkið brjóta lög með því að kaupa gögn sem aflað hefur verið á ólöglegan hátt og hefur hann kært málið til lögreglunnar.

Ráðherrann veitti skattayfirvöldum leyfi til að verja milljónum danskra króna til kaupa á gögnum með upplýsingum um 500 til 600 danska  skattgreiðendur til að kanna hvort þeir hefðu gerst sekir um skattsvik í stórum stíl. 

Jørn Vestergaard, prófessor í refsirétti við Kaupmannahafnarháskóla, er þeirrar skoðunar að ekki sé um refsivert athæfi að ræða. Séu hins vegar upplýsingar sem aflað er með því að brjóta lög notaðar án heimildar sé um refsiverðan verknað að ræða.

Prófessorinn segir hefð fyrir því í dönsku réttarkerfi að horfa með skynsemi á allar lagagreinar og út frá því hverju löggjafinn hafi gert ráð fyrir. Í þessu máli sé greinilegt að málið hafi verið vandlega íhugað í ráðuneyti skattamála.  

Í frétt Politiken segir að um pólítíska ákvörðun hafi verið að ræða sem hafi notið stuðnings breiðs meirihluta á danska þinginu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×