Enski boltinn

Vidic: Stoltur að Bailly sé borinn saman við mig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eric Bailly.
Eric Bailly. vísir/getty
Nemanja Vidic, fyrrverandi leikmaður Manchester United, er stoltur af því að vera borinn saman við Eric Bailly, Fílabeinsstrendinginn sem gekk í raðir United frá Villreal í sumar.

Bailly, sem er 22 ára gamall, hefur verið fljótur að aðlagast ensku úrvalsdeildinni og var útnefndur leikmaður mánaðarins í ágúst hjá Manchester United.

Frammistaða hans í fyrstu leikjum nýs tímabils í úrvalsdeildinni hefur orðið til þess að ýmsir eru byrjaðir að bera hann saman við Vidic sem vann ensku deildina fimm sinnum og Meistaradeildina einu sinni á níu árum á Old Trafford.

„Það er gaman að heyra að hann sé borinn saman við mig. Miðað við það sem ég hef séð er hann mjög góður leikmaður,“ sagði Vidic í viðtali við MUTV um helgina.

„Ef hann heldur áfram að spila svona og bæta sig mun hann eiga glæstan feril á Old Trafford. Auðvitað er ég ánægður að heyra að einhver ber hann saman við mig og vonandi verður þetta bara leikmaður sem stendur sig fyrir okkur.“

„Hann er sterkur en yfirvegaður og er fullur sjálfstrausts. Hann hefur smá af öllu. Þetta er leikmaður framtíðarinnar,“ sagði Nemanja Vidic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×