Enski boltinn

Courtois grét þegar hann yfirgaf Atlético og hann vill snúa aftur til Madrídar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thibaut Courtois vill fara heim til Madrídar.
Thibaut Courtois vill fara heim til Madrídar. vísir/getty
Thibaut Courtois, markvörður Chelsea og belgíska lansdliðsins, viðurkennir að hann vill snúa aftur til Atlético Madrid í spænsku 1. deildinni en óvíst er hvort hann skrifi undir nýjan samning við Chelsea út af því.

Belginn gekk í raðir Chelsea frá Genk 2011 en var rakleiðis lánaðuar til Atlético þar sem hann spilaði í þrjú ár. Courtois var einn af lykilmönnum liðsins sem vann spænska bikarinn 2013, spænsku 1. deildina 2014 og Evrópudeildina 2012.

Hann viðurkennir að hafa grátið þegar ljóst var að hann myndi ekki spila áfram fyrir Atlético en hann var á endanum fenginn til að leysa Petr Cech af í marki Chelsea.

„Mér líður eins og ég sé hálf spænskur. Það var erfið stund þegar ég kvaddi Atlético. Ég grét. Atlético er fjölskyldufélag. Ég finn enn fyrir ást þess,“ segir Courtois í viðtali við spænska íþróttablaðið Marca.

„Frá fyrstu mínútu elskaði ég Spán. Ég varð ástfanginn af fólkinu, lífstílnum og matnum. Ég borða enn þá kvöldmat og legg mig svo síðdegis. Svo horfi ég mest á spænska sjónvarpsþætti. Ég er hálf spænskur,“ segir Belginn sem er samningsbundinn Chelsea til 2018.

„Ég er með samning í tvö ár til viðbótar. Árið 2018 mun ég meta það hvort ég haldi áfram hjá Chelsea eða fari,“ segir Thibaut Courtois.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×