Enski boltinn

Wenger: Bendtner er misskilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bendtner og Wenger ræðast við.
Bendtner og Wenger ræðast við. vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, vonast til að danski framherjinn Nicklas Bendtner nái sér á strik hjá Nottingham Forest og segir hann misskilinn.

Forest tekur á móti Arsenal í 3. umferð enska deildarbikarsins í kvöld. Bendtner mætir þar sínu gamla liði en hann var níu ár í herbúðum Arsenal.

Bendtner lék sinn fyrsta leik fyrir Skytturnar þegar hann var aðeins 17 ára en náði aldrei að uppfylla þær væntingar sem til hans voru gerðar.

Bendtner fór til Wolfsburg árið 2014 en fann sig ekki hjá þýska liðinu og skoraði aðeins þrjú mörk í 31 deildarleik. Fyrr í þessum mánuði gerði hann svo tveggja ára samning við Forest.

„Það kom mér á óvart að Nicklas skyldi semja við Nottingham Forest en á einhverjum tímapunkti þarf hann að koma ferlinum aftur í gang,“ sagði Wenger um sinn gamla lærisvein.

„Stundum þarftu bara að fá tækifæri. Við vitum hversu góður hann er en hann þarf að spila,“ bætti Frakkinn við. Hann segir að Bendtner vilji eflaust sanna sig gegn Arsenal.

 

„Auðvitað þarf hann að sanna sig. Hann er að spila á getustigi sem hann er ekki vanur. En hann er nógu auðmjúkur og einbeittur til að sýna sig og sanna á nýjan leik,“ sagði Wenger.

Bendtner er þekktur fyrir að hafa mikið álit á sjálfum sér og er af mörgum talinn hrokafullur. Wenger segir að Daninn sé misskilinn.

„Fólki telur að hann sé borubrattur en það finnst mér ekki. Hann var stundum óþolinmóður þegar hann var hjá okkur og vonsvikinn að fá ekki tækifæri sem ég skil. Þetta er erfitt - ég ætla ekki að dæma hann,“ sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×