Innlent

Segja ástandið hafa aldrei verið jafn slæmt og nú

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá mótmælum lögreglumanna við Borgartún 21.,
Frá mótmælum lögreglumanna við Borgartún 21., Vísir/Daníel
Lögreglufélag Reykjavíkur (LR) lýsir yfir þungum áhyggjum af því sem það segir vera mönnunarvanda í lögregluumdæmum landsins. Tekur félagið þar í sama streng og kollegar þeirra í lögreglufélagi Norðurlands-Vestra sem sögðu að þeir gætu ekki tryggt öryggi líkt og staðan er nú.

Pétur Björnsson, formaður Lögreglufélags Norðurlands vestra, sagði í samtali við Vísi í gær að hvorki væri hægt að tryggja öryggi lögreglumanna né almennings líkt. Stundum sé einungis einn lögreglumaður á vakt í öllu umdæminu. 

„Upplifun manna er að ástandið hafi aldrei verið eins slæmt og nú og við höfum miklar áhyggjur af stöðunni. Við teljum öryggi lögreglumanna verulega ógnað með sí-endurtekinni undirmönnun á vöktum,“ segir stjórn LR í yfirlýsingu og bætir við að hið aukna álag endurspeglist meðal annars í auknum veikindum og vinnuslysum.

Þá er einnig fullyrt í yfirlýsingunni að margir hæfir lögreglumenn hafi þurft frá að hverfa vegna mikils álags.

Stjórnin segir að mikil nauðsyn sé á að bregðast við þessu ástandi og leggja meiri áherslu á að hlúa að þeim mannskap sem eftir er. „Hann er orðinn langþreyttur og orkan og þolinmæðin er á þrotum. Mikilvægi þessara fáu lögreglumanna sem eftir eru er gífurlegt. Bæði fyrir framtíð embættanna, sem og fyrir öryggi borgarans. Það er mikilvægt að þeir fái að upplifa það og uppskeri í samræmi við aukið álag,“ segir í yfirlýsingunni.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×