Lífið

Þekkti ekki pabba sinn án skeggsins - myndband

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Foreldrar Ernis bjuggust við allt öðrum viðbrögðum.
Foreldrar Ernis bjuggust við allt öðrum viðbrögðum. Vísir/Getty
Myndband af íslenskum dreng, sem þekkir ekki nýrakaðan föður sinn, hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð. Drengurinn, hinn tæplega eins árs gamli Ernir Hjörleifur Gunnarsson, fer að gráta þegar hann sér pabba sinn án skeggsins og virðist hreinlega ekki kannast við hann.

Foreldrar drengsins, þau Assa Sólveig Jónsdóttir Hansen og Gunnar Kári Oddsson, eru búsett í Svíþjóð en fjölmiðlar þar í landi hafa fjallað um málið, enda er myndbandið vægast sagt skemmtilegt.

Dagblaðið Aftonbladet sýndi myndbandið til að mynda í fréttatíma sínum ásamt viðtali við Gunnar Kára. Í viðtalinu segir Gunnar Kári að þau hjúin hefðu séð myndbönd á netinu af börnum bregðast við feðrum sínum nýrökuðum.

„Flest börnin virtust frekar kát og fannst þetta fyndið þannig að við héldum að viðbrögðin hans yrðu líka á þá leið,“ sagði Gunnar. „Fyrstu klukkustundirnar grét hann bara við það að sjá mig, þannig að ég þurfti að hylja andlit mitt. Eftir það róaðist hann og fattaði að þetta var bara ég.“

Þrátt fyrir að Ernir sé ekki orðinn eins árs er þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann vekur athygli fjölmiðla. Í sumar fann Ernir titrara foreldra sinna og byrjaði að sveifla honum upp og niður með þeim afleiðingum að hann sló honum fast í andlitið á móður sinni, Össu Sólveigu Jónsdóttur Hansen.

Assa deildi mynd af sér á Twitter með heljarinnar glóðarauga sem hún hlaut í kjölfarið, en Vísir greindi einnig frá þessu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×