Skoðun

Lífsgæði og lífsógnandi sjúkdómur

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir skrifar
Hvernig er hægt að tala um lífsgæði og lífsógnandi sjúkdóma í einni og sömu andrá? Þegar sjúkdómar og erfið veikindi gera vart við sig eigum við erfitt með að sjá að um einhver lífsgæði geti verið að ræða í slíkum aðstæðum. Við tengjum almennt lífsgæði okkar sterkt við heilsu og þegar hún gefur sig þá verður breyting þar á.

Líknarmeðferð er hugmyndafræði sem leggur áherslu á að bæta lífsgæði þeirra sem eru með lífsógnandi sjúkdóma og fjölskyldna þeirra. Heildræn sýn á manneskjuna liggur þar að baki þar sem hin mismunandi svið tilverunnar eru talin skarast og öll skipta máli í meðhöndlun og umönnun fólks með lífsógnandi sjúkdóma. Þessi svið tilverunnar snerta líkamlega þætti, sálfélagslega og andlega og trúarlega. Einkenni sjúkdóma eru meðhöndluð svo sem verkir, ógleði, magnleysi, kvíði, depurð o.s.frv. Fjölskyldan skiptir máli og ítrekað er að þegar einn fjölskyldumeðlimur veikist hefur það áhrif á alla í viðkomandi fjölskyldu.

Alþjóðlegur dagur líknarmeðferðar er haldinn ár hvert og ber í ár upp á 8. október. Tilgangurinn með því að halda slíkan dag er að vekja athygli og auka skilning á líknarmeðferð og styðja við þá meðferð á alþjóðavettvangi. Hvert ár hefur ákveðna yfirskrift og er yfirskrift dagsins í ár: Að lifa og deyja í sársauka – Það þarf ekki að vera raunin (“Living and dying in pain: It doesn´t have to happen”).

Lífið – samtök um líknarmeðferð voru stofnuð árið 1998 og er markmið samtakanna m.a. að stuðla að framförum á sviði líknarmeðferðar, að hvetja til rannsókna á sviði líknarmeðferðar og að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Lífið hefur í gegnum árin staðið fyrir námskeiðum, málstofum og ráðstefnum bæði ein sér og í samstarfi við aðra, stutt og styrkt heilbrigðisstarfsfólk í símenntun og framhaldsnámi og vakið athygli á líknarmeðferð á almennum vettvangi. Í tilefni af alþjóðlegum degi líknarmeðferðar í ár eru samtökin að vinna að heildaruppfærslu og endurskoðun á vefsíðu sinni www.lsl.is.

Ný og endurbætt vefsíða verður tekin í notkun nú í októbermánuði. Ég vil hvetja öll þau sem áhuga hafa á líknarmeðferð og vilja kynna sér hana frekar að heimsækja vefsíðu samtakanna. Aukin þekking á líknarmeðferð og efling líknarmeðferðar stuðlar að betri þjónustu við öll þau sem haldin eru lífsógnandi sjúkdómum sem og fjölskyldur þeirra.




Skoðun

Sjá meira


×