Skoðun

Ómissandi háskólar

Oddný Harðardóttir skrifar
Háskólar eru ómissandi fyrir þróun samfélagins því þeir hafa áhrif á farsæld þjóðfélagsins alls. Þeir eru drifkraftur atvinnulífsins, og uppspretta þekkingar á okkur sjálfum og umhverfi okkar. Í dag birtist yfirlýsing rektora allra íslensku háskólanna, sem segir að háskólarnir séu í vanda og að kominn sé tími til að fjárfesta í þeim. Við tökum undir þeirra ákall.

Vanda þeirra svipar til vanda heilbrigðiskerfisins, en áhrifin eru ekki jafn áþreifanleg. Það eru engir sjúklingar í bílakjöllurum, en til framtíðar litið blasir við fátækara samfélag. Tækifæri fólks til þess að afla sér menntunar er undirstaða þess að hér verði gott að búa og ungt fólk finni sér spennandi störf. Ísland náði nýlega að jafna menntunarstig þjóðarinnar miðað við nágrannaþjóðir okkar. Það er árangur sem standa þarf vörð um og síðan gera betur.

Fleiri kennara og hjúkrunarfræðinga

Atvinnulífið og háskólarnir eru samofin og nú þarf að líta sérstaklega til stóru háskólamenntuðu stéttanna, hjúkrunarfræðinga og kennara.  Áætlað er að um 700 - 800 hjúkrunarfræðingar komist á eftirlaunaaldur á næstu árum en aðeins um 450 muni útskrifast úr hjúkrunarfræðinámi á sama tíma. Við sjáum því fram á gríðarlegan mönnunavanda í náinni framtíð ef ekkert verður að gert, sem auka mun enn frekar álagið á starfandi hjúkrunarfræðinga.

Sífellt færri stúdentar skrá sig í kennaranám og komið hefur fram hjá samtökum kennara að margir hætti kennslu vegna lágra launa. Ef fram heldur sem horfir mun grunnskólakennurum fækka verulega á næstu árum og eftir þrjátíu ár fjöldi réttindakennara helmingast frá því sem nú er, samkvæmt rannsókn sem birt var fyrr á árinu.

Nú þegar hefur réttindalausum kennurum í skólum á landsbyggðinni fjölgað mikið sem grefur undir jafnri stöðu barna óháð búsetu.

Leysum málið saman

Samfylkingin ætlar í samstarfi við háskólana, sveitarfélögin og sjúkrahúsin að gera áætlun til framtíðar og bregðast við þessari fækkun. Háskólarnir eru ómissandi hluti af samfélagi sem við viljum búa í sem er ríkt af mannauði, hugviti og velsæld. Það verður að ráðast strax í að leysa vanda þeirra og styðja við þeirra framtíðaráætlanir eins og rektorarnir hafa kallað eftir.




Skoðun

Sjá meira


×