Handbolti

Alfreð og félagar fyrstir til að vinna Berlínarrefina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð stýrði Kiel til sigurs í kvöld.
Alfreð stýrði Kiel til sigurs í kvöld. vísir/getty
Kiel varð í kvöld fyrsta liðið til að leggja Füchse Berlin að velli í þýsku 1. deildinni í vetur. Lokatölur 18-26, lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í vil.

Kiel spilaði afar sterka vörn í leiknum og fyrir aftan hana vörðu Niklas Landin og Andreas Wolff vel.

Kiel var allan tímann með undirtökin í leiknum, komst snemma í 1-5 og leiddi með sex mörkum í hálfleik, 7-13. Í seinni hálfleik dró enn í sundur með liðunum og Kiel vann að lokum átta marka sigur, 18-26.

Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk fyrir Füchse Berlin sem Erlingur Richardsson þjálfar. Liðið er með 12 stig í 2. sæti deildarinnar, jafnmörg og Kiel sem er í toppsætinu.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í liði Rhein-Neckar Löwen sem vann sjö marka sigur, 20-27, á Gummersbach á útivelli.

Guðjón Valur skoraði sex mörk í leiknum líkt og Andy Schmid og Kim Ekdahl Du Rietz. Alexander Petersson skoraði þrjú mörk.

Löwen er í 4. sæti deildarinnar með 10 stig eftir sex leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×