Skoðun

Manngæska og fjármagn

Guðrún Alda Harðardóttir skrifar
Þegar ég horfi upp á hvernig börnum og öldruðum er iðulega sýnt virðingarleysi í samfélagi okkar, þá velti ég fyrir mér hvar vandinn liggur. Er það fjármagnsleysi? Ef til vill. En fjármagn skapar ekki endilega virðingu og manngæska krefst ekki endilega fjármagns. Ég segi hér stutta sögu sem gefur örlitla innsýn í það hvernig ástandið er í heilbrigðiskerfinu okkar sem stjórnvöld segja að sé eitt það besta í heiminum. Hún er því miður ekkert einsdæmi, og þess vegna segi ég hana.

Kona sem barist hefur alla sína tíð fyrir þá sem minna mega sín í íslensku samfélagi er orðin öldruð, veikburða, lögblind og hreyfigetan lítil, með kvíða og mikla innilokunarkennd. Hugurinn er hins vegar fullfrískur, en þar sem hún þarf aðstoð við persónulegar þarfir þá er hún vistuð á stofnun í dag. Og á þessari stofnun hefur hún mátt þola ýmislegt ofan á það sem áður er nefnt, meðal annars gleymst inni á salerni án neyðarbjöllu.

Þá þótti ekki ástæða til að læknir skoðaði hana þegar hún fékk flensu þrátt fyrir að aðstandendur konunnar hefðu lýst áhyggjum sínum við starfsfólk stofnunarinnar yfir auknum slappleika konunnar. Starfsfólkið virtist ekki hafa miklar áhyggjur og svaraði því til að hún væri orðin öldruð og eflaust væri um ellihrörnun að ræða.

Konan hafði verið veik í um tvær vikur þegar aðstandendur hringdu í stofnunina og fóru fram á að læknir skoðaði hana. Þar sem vitað var að læknir kæmi vanalega í húsið upp úr hádegi, þá mættu þeir auk þess þangað á sama tíma. Konan var jafn slöpp og áður og sagðist hafa hringt neyðarbjöllunni látlaust þá um nóttina en enginn hefði komið. Í ljós kom að bjallan virkaði ekki sem skyldi.

Þetta var um klukkan 13.30 og þótt konan hefði tjáð starfsfólkinu strax um morguninn að hún hefði hringt bjöllunni um nóttina en enginn komið, sá ekkert af starfsfólkinu ástæðu til að kanna hvort bjallan væri í lagi. Og meðan aðstandendurnir voru á staðnum sjá þeir mann með hlustunarpípu í vasa ganga framhjá sjúkrastofunni og segist hann aðspurður vera læknir. Þeir lýsa áhyggjum sínum yfir ástandi móðurinnar og biðja hann að hlusta hana, þótt ekki væri meira. Hann gerði það og í ljós kom að konan var með vökva í báðum lungum! Og hafði eflaust verið með það um nokkurt skeið.

Ef þessi kona hefði verið í heimahúsi, hefði hún einfaldlega farið á læknavaktina eða fengið lækni heim, eins og gengur og gerist. En þar sem hún var stödd á stofnun þar sem læknar og annað hjúkrunarfólk starfar, hefði mátt búast við að hún ætti greiðari aðgang að heilbrigðisþjónustu en þeir sem heima eru. Þar ríkti hins vegar sinnuleysi gagnvart ástandi konunnar, eins og áður er lýst. Rétt er að taka fram að ekki var hægt að greina að mannekla hrjáði stofnunina.

Lesandi góður, þetta er raunsönn saga af aðstæðum sem enginn myndi vilja lenda í sjálfur en því miður er þetta ekki einsdæmi um það ófremdarástand sem ríkir víða í heilbrigðiskerfinu hér á landi. Gamla fólkið okkar á betra skilið.






Skoðun

Sjá meira


×