Skoðun

Niðurgreitt innanlandsflug – hví ekki?

Guðmundur Edgarsson skrifar
Knattspyrnuhetjan og gistihúsaeigandinn Ívar Ingimarsson vill niðurgreiða innanlandsflug svo landsbyggðin fái notið ríkisrekinnar þjónustu í höfuðborginni með sama hætti og þeir sem búa á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ívar spyr um réttlæti þess að fólk á suðvesturhorninu geti notið þjónustu stofnana á borð við Þjóðleikhúsið, Hörpu og Landspítalann meðan landsbyggðarfólk þurfi að búa við skertan aðgang vegna fjarlægðar og hárra flugfargjalda. Þetta er réttmæt ábending hjá Ívari og því kærkomið tækifæri fyrir stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum að tala fyrir niðurgreiddu innanlandsflugi.

Niðurgreiðslur á niðurgreiðslur ofan

En ein niðurgreiðsla kallar á aðra. Ekki mun líða á löngu þar til aðrir hagsmunahópar muni krefjast niðurgreiðslna sér til handa og munu þá vísa í alls kyns fordæmi, t.d. ríkisstyrkt innanlandsflug. Og eftir því sem fordæmunum fyrir ríkisstyrkjum fjölgar, því erfiðara verður að standa gegn fleiri slíkum. Smám saman mun félagshyggjan verða alltumlykjandi og útþanið ríkisbáknið ganga stöðugt lengra í skattheimtu og miðstýringu.

Rjúfa þarf vítahringinn

En hvernig á þá að rjúfa þennan vítahring sífellt víðtækari niðurgreiðslna með tilheyrandi skattahækkunum og valdasamþjöppun stjórnmálamanna? Einfaldlega með því að vinda ofan af þeim, einni af annarri, og leyfa markaðnum að þróast í æ virkara samkeppnisumhverfi þar sem sköttum og íþyngjandi reglugerðum er haldið í lágmarki. Í slíku samfélagi mun frelsi til nýsköpunar og hvatar til hagræðingar leiða til æ ódýrari lausna á sífellt fleiri sviðum. Tekjumunur verður áfram en aðgengi að lífsgæðum jafnari þar sem vörur og þjónusta verða sífellt ódýrari í slíku umhverfi. Kröfur um valdboðnar niðurgreiðslur verða því undantekningin fremur en reglan. Jafnvel í velferðarmálum munu tryggingarfélög á markaði sem og sjálfsprottið framtak einstaklinga og frjálsra félagasamtaka leysa ríkið af hólmi að stórum hluta því í samfélagi sem byggir á viðskiptafrelsi og sívirkri samkeppni verður hagsæld og verðmætasköpun mun meiri en við þekkjum undir pólitísku kerfi þar sem ríkið einokar hvert sviðið á fætur öðru. Því er brýnt að leyfa markaðnum að þróast á heilbrigðum grundvelli í stað þess að skekkja hann með vanhugsuðum niðurgreiðslum æ ofan í æ.

 




Skoðun

Sjá meira


×