Skoðun

Þess vegna er kennarastarfið aðlaðandi ævistarf

Björg Sigurvinsdóttir skrifar
Þegar ég var í 9. bekk í grunnskóla fletti ég bæklingi þar sem námsframboð var kynnt. Eftir nokkrar vangaveltur ákvað ég að velja mér nám á uppeldisbraut. Markmiðið var að læra seinna að verða leikskólakennari eða fóstra eins og það hét þá. Ég hafði eins og margar ungar stúlkur varið sumrum við að gæta lítilla barna og þótti það mjög skemmtilegt. Einnig spilaði inn í að ég var ekki góð í stærðfræði og sá mér til léttis að sú fræðigrein var ekki í náminu.

Ég bjó á Akureyri og þurfti að flytja til Reykjavíkur til að ná markmiðinu mínu og lét það ekki stoppa mig og útskrifaðist úr náminu 21 árs. Fór strax að vinna á vettvangi og hef unnið sem leikskólakennari, deildarstjóri, aðstoðarleikskólastjóri og leikskólastjóri. Þetta hefur verið ánægjulegur starfsvettvangur minn í 33 ár. Starfsvettvangur þar sem ég hef starfað óslitið fyrir utan örlítið hlé við uppeldi eigin barns og framhaldsnám í menntunarfræðum með áherslu á stjórnun

Starfsánægjan mín er sérstaklega fólgin í að fá sem fræðimaður í leikskóla að stuðla að því að börnin séu ánægð og sýni framfarir í þroska. Ég ber mikla virðingu fyrir börnum og legg áherslu á að einstaklingnum líði vel og hann fái að njóta sín. Fjölbreyttar kennsluaðferðir í gegnum leikinn eru að mínu mati langbesta leiðin til að hvetja börn til dáða og efla þroska þeirra. Sem leikskólakennari hef ég haft tækifæri á að gefa börnum svigrúm til að læra að leika sér saman á sanngjarnan hátt, deila með sér og biðjast fyrirgefningar þegar þau særa aðra. Börn læra að skila hlutum á sinn stað, laga til eftir sig og taka ekki það sem aðrir eiga. Börn læra að tala, teikna, mála, syngja og hreyfa/dansa í gegnum leik og vinnu á skapandi hátt á hverjum degi. Börn læra að þegar þau fara út í heiminn þurfa þau að muna eftir því að gæta sín á bílunum, leiða og halda hópinn. Síðast en ekki síst að taka eftir öllum frábæru undrunarefnunum í kringum sig.

Til þess að slík skilyrði skapist og nái að blómstra og dafna verður að beina kastljósinu að leikskólakennurum, lykilfólkinu í leikskólastarfinu. Leikskólakennurum er vel ljós sú ábyrgð sem þeir hafa lagt á sínar herðar með vali á starfsvettvangi. Þeir eru boðnir og búnir til að styðja og leiða börnin á þroskabraut sinni, þeir gefa mikið af sér og sýna börnum mikla alúð og virðingu. Leikskólakennarar gera sér grein fyrir að kennsla ungra barna getur verið krefjandi og flókin, en jafnframt gefandi, fjölbreytt og skemmtileg. Ég skora á ungt fólk að velja þetta frábæra tækifæri sem vinna með ungum börnum gefur með því að mennta sig sem kennari yngri barna.

 

 




Skoðun

Sjá meira


×