Skoðun

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn 10. október

Steinn Thoroddsen Halldórsson skrifar
Næstkomandi mánudag, 10. október, verður Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn haldinn hátíðlegur í 25.skipti. Markmið dagsins eru meðal annars að vekja athygli á geðheilbrigðismálum, fræða almenning og sporna gegn fordómum.

Markmið dagsins ríma vel við markmið Hugrúnar, nýstofnaðs geðfræðslufélags nemenda við Háskóla Íslands. Félagið var stofnað snemma í vor í þeim tilgangi að fræða ungt fólk um geðheilbrigði og geðraskanir. Starfið hófst formlega í þessari viku með okkar fyrstu heimsóknum í menntaskóla en sjálfboðaliðar félagsins munu á næstu vikum fara vítt og breitt um landið að ræða við framhaldsskólanema.

Í aðdraganda Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins 10. október stendur Hugrún fyrir greinaskriftaátaki þar sem birtast bæði reynslusögur og grein frá sjónarhóli fagaðila á Vísi.is. Á Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum sjálfum stendur Hugrún fyrir opnu fræðslukvöldi í Háskóla Íslands. Á dagskrá verða erindi um þunglyndi, átröskun sem og geðheilbrigði almennt. Við hvetjum allt áhugafólk um geðheilbrigðismál til að mæta og fagna Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum með okkur. Dagskrá kvöldsins má finna hér.

Geðheilbrigðismál eru einn allra mikilvægasti flokkur heilbrigðismála og þar af leiðandi eitt stærsta verkefni sem hvert og eitt samfélag stendur frammi fyrir. Alþjóða Heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið út skýrslu um hversu mörg góð æviár tapast vegna mismunandi sjúkdóma. Í hinum vestræna heimi er þunglyndi í fyrsta sæti, á undan hjarta- og æðasjúkdómum og Alzheimer. Þar að auki er áfengisfíkn í 5. sæti. Byrði samfélagsins og einstaklinga vegna geðrænna veikinda er því gífurleg og sýnir vel nauðsyn þess að við gerum betur í þessum málaflokki.

Við í Hugrúnu viljum því hvetja almenning til að fylgjast með átakinu og taka þátt í Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum. Veitum geðheilbrigðismálum það vægi sem þau eiga skilið. 

Greinin er hluti af greinaskriftaátaki Hugrúnar, nýstofnaðs geðfræðslufélags við Háskóla Íslands, í tilefni Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins 10. október.




Skoðun

Sjá meira


×