Skoðun

Fjárfest í betri framtíð

Oddur Sturluson skrifar
Orkukerfi sem byggja á samþættingu og nýtingu umhverfisvænna orkugjafa hafa fengið aukinn byr í seglin á síðastliðnum árum. Í fyrra var sett met í hnattrænum fjárfestingum í nýtingu á endurnýjanlegri og hreinni orku – tæplega 30 billjónir íslenskra króna sem samsvarar rúmlega fimmtánfaldri vergri þjóðarframleiðslu Íslands.

Heildarfjárfestingar hafa því fjórfaldast síðan 2004. Það vekur sérstaka athygli að nýiðnvædd ríki juku fjárfestingar í umhverfisvænum orkugjöfum um 19%, þrátt fyrir verðfall á hráolíu og kolum sem ætti að hafa verndað samkeppnisstöðu jarðefnaeldsneytis. Jafnvel Kína, sem hefur fengið mikla gagnrýni á síðustu árum vegna mengunar, jók sínar fjárfestingar um 17%.

Sögulegur árangur náðist á COP 21 ráðstefnunni í París í desember síðastliðnum, bæði í vitundarvakningu þjóða og alþjóðlegu samstarfi með aukinni áherslu á endurnýjanlega orkugjafa, samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og orkuöryggi. Draumurinn um sjálfbæran, hnattrænan efnahag sem keyrist áfram á grænni orku hefur aldrei verið raunsærri. Slík bylting gerist þó ekki af sjálfu sér og byggist á óþrjótandi vinnu ráðamanna, vísindamanna og frumkvöðla.

Startup Energy Reykjavik er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Arion banka, GEORG og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Um framkvæmd verkefnisins sjá Icelandic Startups og Íslenski jarðvarmaklasinn. Markmið verkefnisins er að efla og styðja við íslenska frumkvöðla og sprota­fyrirtæki sem starfa í orkutengdum greinum.

Startup Energy Reykjavik er viðskiptahraðall (e. business-accelerator) þar sem sjö sprotafyrirtæki fá aðgang að ríflega 60 sérfræðingum í íslensku atvinnulífi. Um er að ræða þaulreynda einstaklinga sem veita þátttakendum ráð og endurgjöf og opna jafnvel á tengslanet sitt í þeim tilgangi að koma viðskiptahugmynd þeirra eins langt og mögulegt er á þeim tíu vikum sem verkefnið stendur yfir. Auk þess fá teymin aðgang að sameiginlegri vinnuaðstöðu þar sem þau fá tækifæri til að vinna með og læra af öðrum frumkvöðlum.

Bakhjarlar verkefnisins; Landsvirkjun, Arion banki, GEORG og Nýsköpunarmiðstöð Íslands fjárfesta jafnframt fimm milljónir króna í hverju fyrirtæki gegn 10% eignarhlut. Verkefninu, sem nú stendur yfir í þriðja sinn, lýkur með kynningum fyrirtækjanna tíu á verkefnum sínum fyrir fjárfestum þann 18. nóvember næstkomandi.




Skoðun

Sjá meira


×