Viðskipti innlent

Í hópi svölustu vörumerkja

Hafliði Helgason skrifar
Vörumerkið Saucy Fish Co nýtur hylli meðal sérfræðinga og almennings í Bretlandi.
Vörumerkið Saucy Fish Co nýtur hylli meðal sérfræðinga og almennings í Bretlandi.
Vörumerki Icelandic Group, Saucy Fish Co, var valið eitt af svölustu vörumerkjum Bretlands.

Árlega er gefinn út listi undir merkinu „CoolBrands“ og er þetta í fjórða sinn í röð sem Saucy Fish Co er valið í hópinn.

Valið fer þannig fram að 36 dómarar úr hópi sérfræðinga og áhrifafólks og 2.500 manns úr hópi neytenda velja vörumerkin sem hljóta heiðurinn. Samkeppnin er hörð og um sæmdartitilinn keppa þúsundir vörumerkja úr 50 geirum verslunar og framleiðslu.

Undir merkjum Saucy Fish Co eru seldir kældir sjávarréttir tilbúnir til eldunar fyrir neytendur. Vörumerkið vegur ekki þungt í heildarsölu Icelandic Group, en hefur átt vaxandi vinsældum að fagna meðal neytenda í Bretlandi.

Haft er eftir formanni dómnefndar á heimasíðu félagsins að vörumerkið sýni hugkvæmni og frumleika. Vörumerkið geri vöruna lokkandi sem leiði til þess að neytendur velji vöruna frekar en vöru keppinautanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×