Viðskipti innlent

Funda um rafrænar undirskriftir

Samúel Karl Ólason skrifar
Brynja Guðmundsdóttir, forstjóri Azazo.
Brynja Guðmundsdóttir, forstjóri Azazo. Vísir/GVA
„Rafræn skilríki eru til í ýmsum formum en þau eiga það sameiginlegt að auðvelda viðskipti, lækka kostnað og spara gríðarlegan tíma fyrir stofnanir og fyrirtæki. Með þeim er hægt að klára viðskipti strax hvort sem verið sé að kaupa bíl á bland.is eða gera samning við erlend fyrirtæki. Þetta auðveldar alla vinnu fyrir utan að rekjanleiki og öryggi gagna eykst gríðarlega.“

Þetta segir Brynja Guðmundsdóttir, forstjóri Azazo. Hún er einn fyrirlesara á hádegisverðarfundi Samtaka Vefiðnaðarins á morgun. Umfjöllunarefni fundarins verður rafrænar undirskriftir og framtíð þeirra á Íslandi.

Auk Brynju munu þau Sigurður Másson frá Advania og Haraldur Bjarnason frá Auðkenni halda fyrirlestra.

Í tilkynningu frá Samtökum Vefiðnaðarins segir að rafrænar undirskriftir hafi einfaldað alla samningagerð gríðarlega „enda er hægt að ganga frá húsnæðiskaupum, lántöku, samþykktum fundargerða o.s.frv. rafrænt án þess að sendast á milli staða með pennann á lofti í viðurvist votta.

Gríðarlega ör þróun hefur verið í þessum efnum síðustu ár og munu sérfræðingarnir ræða hvað sé fram undan og hvernig Ísland stendur gagnvart þróun í Bandaríkjunum og Evrópu.“

Hádegisfundurinn fer fram á Nauthóli og byrjar klukkan hálf tólf. Hægt er að skrá sig á vef SVEF.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×