Enski boltinn

Bradley: Stórt tækifæri fyrir bandaríska knattspyrnu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bob Bradley.
Bob Bradley. vísir/getty
Forráðamenn Swansea City komu ansi mörgum á óvart er þeir réðu Bob Bradley sem stjóra félagsins. Hann verður fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem stýrir liði í ensku úrvalsdeildinni.

Hann tekur við liðinu af Francesco Guidolin sem var rekinn. Bradley var að þjálfa franska liðið Le Havre og stýrði því í síðasta sinn í gær. Liðið vann þann leik og hann skilar liðinu af sér í fimmta sæti frönsku B-deildarinnar.

„Að fara í ensku úrvalsdeildina er sérstakt. Þetta er stórt tækifæri fyrir mig, fjölskyldu mína og bandaríska knattspyrnu. Það er mikilvægt,“ sagði hinn 58 ára gamli Bradley.

Hann fór í þjálfun árið 1981 og hefur komið víða við. Bradley þjálfaði meðal annars bandaríska og egypska landsliðið, norska liðið Stabæk og bandaríska liðið Chicago Fire.

Eigendur Swansea, Steve Kaplan og Jason Levien, eru Bandaríkjamenn og treysta landa sínum fullkomlega fyrir þessu starfi.

„Það er leiðinlegt að þurfa að yfirgefa Le Havre núna og í fullkomnum heimi myndi ég klára tímabilið. Fótboltinn spyr samt ekki um tímasetningar,“ sagði Bradley.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×