Enski boltinn

Man. City vann tvöfalt í kvennaboltanum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Leikmenn City fagna í gær.
Leikmenn City fagna í gær. vísir/getty
Man. City er tvöfaldur meistari í kvennaboltanum á Englandi. Í gær lagði liðið Birmingham, 1-0, í framlengdum bikarúrslitaleik.

Það var Lucy Bronze sem skoraði eina mark leiksins með skalla. Fyrir viku tryggði City sér deildarmeistaratitilinn þannig að tvennan er í húsi hjá City-stúlkum.

Rúmlega 4.000 manns mættu á bikarúrslitaleikinn sem fór fram á æfingasvæði City. Það var val enska knattspyrnusambandsins sem hlutlaus völlur við litla kátínu forkólfa Birmingham.

Þetta var annar bikarmeistaratitill City á þremur árum.

Dagurinn var ansi stór hjá Nick Cushing, þjálfara City. Konan hans fór nefnilega upp á fæðingardeild á sama tíma og leikurinn var að hefjast. Hann ákvað að klára leikinn áður en hann fór upp á sjúkrahús.

„Ég er ekki búinn að fá nein skilaboð frá konunni þannig að ég veit ekki hvort hún er búin að eiga. Ég þurfti að standa mína plikt hér fyrst,“ sagði Cushing áður en hann rauk upp á fæðingardeild.

„Þetta var frábær sigur en ég hélt að við myndum tapa þegar 20 mínútur voru eftir. Svo hefst Meistaradeildin á fimmtudag og við verðum að spila betur þar en við gerðum í þessum leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×