Enski boltinn

Tottenham fyrsta liðið sem sigrar City undir stjórn Guardiola

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Tottenham vann öruggan 2-0 sigur á Manchester City á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag en þetta var fyrsta tap Manchester City undir stjórn Pep Guardiola.

Með sigrinum lyfti Tottenham sér upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sautján stig, aðeins stigi á eftir Manchester City á toppi deildarinnar. Jafnframt er Tottenham eina lið deildarinnar sem hefur ekki enn tapað leik.

Aleksandar Kolarov, bakvörður Manchester City, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 9. mínútu leiksins er boltinn fór af honum eftir fyrigjöf Danny Rose og í netið, óverjandi fyrir Claudio Bravo í marki gestanna.

Tottenham var sterkari aðilinn allan leikinn og náði Dele Alli að bæta við marki á 37. mínútu fyrir Tottenham eftir góðan undirbúning Son Heung-Min.

Heimamenn fengu sannkallað draumafæri til að gera út um leikinn á 65. mínútu þegar Alli krækti í vítaspyrnu en Erik Lamela sem krafðist þess að taka spyrnuna lét Bravo verja frá sér.

City-menn ógnuðu marki Tottenham nokkrum sinnum á seinasta hálftíma leiksins en náðu ekki að koma boltanum framhjá Hugo Lloris.

Lauk leiknum því með sigri Tottenham sem hefur unnið fimm leiki og gert tvö jafntefli í fyrstu sjö leikjum tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×