Viðskipti innlent

Segja íslenskt viskí betra en það skoska

Sæunn Gísladóttir skrifar
Frá Eimverk Distillery
Frá Eimverk Distillery
Íslenski matarsprotinn var afhentur í fyrsta sinn á fimmtudag af Íslenska sjávarklasanum, í samstarfi við Landbúnaðarklasann og Matvælalandið Ísland og hlaut bruggverksmiðjan Eimverk verðlaunin.

Eimverk er fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir Flóka viskí, Vor gin, og Víti ákavíti. Lagt er upp úr notkun íslenskra hráefna við framleiðsluna og hefur fyrirtækið hlotið fjölda verðlauna á síðustu árum, meðal annars Vaxtarsprotann 2016 eftir að velta fyrirtækisins jókst um 333,3 prósent milli ára.

Vörurnar frá Eimverk distillery.vísir/stefán
Haraldur Þorkelsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Eimverks, segir að meðal annars megi rekja velgengni félagsins til þess að kjöraðstæður séu til framleiðslu viskís á Ísland. „Okkar viskí er enn þá betra en í Skotlandi, það er ekki bara vatnið, bygg sem vex á norðlægum slóðum hentar mjög vel í viskígerð. Við erum alveg á jaðrinum með að geta ræktað bygg á Íslandi og fáum fyrir vikið mjög kryddað og kraftmikið bygg sem vex á stuttu sumri. Skilyrðin á Íslandi fyrir viský eru afar góð, og við erum bæði með gott hráefni og góða sambandsaðila hjá íslenskum bændum. Við getum framleitt mikið magn af úrvalsviskíi,“ segir Haraldur.

Sem fyrr segir er Eimverk fjölskyldufyrirtæki, en Haraldur kemur úr tæknigeiranum, hann starfaði hjá hugbúnaðarfyrirtækinu OZ frá 1996 þangað til félagið var selt til Nokia og starfaði hjá Nokia til ársins 2010. „Við erum hérna nokkur saman með fjölbreytta reynslu, við komum saman með vöruþekkingu og töluverða reynslu úr sprotastarfi. Við höfum verið áður í tæknisprotum sem er reynsla sem nýtist vel í matarsprotum,“ segir Haraldur.

Haraldur Þorkelsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Eimverks.vísir/gva
Eimverk var stofnað árið 2011, en vöruþróunin tók töluverðan tíma að sögn Haraldar. „Við gerðum 165 mismunandi uppskriftatilraunir við að þróa íslenskt viskí. Samhliða þessu þróuðum við ákavíti og gin. Ginið okkar kom á markað í byrjun 2014, viskíið í lok árs 2014, og ákavíti kom á markað 2015.“

Vörurnar eru nú seldar til þrettán landa og fara níutíu prósent af framleiðslunni til útlanda. Fleiri tegundir eru svo í bígerð. „Við erum með þessar þrjár aðaltegundir en það breikkar í þessum flokkum, við erum núna komin með fjórar útfærslur af þessu gini og erum að bæta við taðreyktu viskíi sem kemur á markað í næstu viku,“ segir Haraldur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×