Viðskipti innlent

Eigendur Art Medica tóku 56 milljónir í arð

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gjaldskrárhækkanir urðu hjá fyrirtækinu í september árið 2015.
Gjaldskrárhækkanir urðu hjá fyrirtækinu í september árið 2015. Vísir/Getty
Fyrirtækið IVF Iceland sem rak Art Medica, einu stöðina sem sinnti tæknifrjóvgunum hér á landi, hagnaðist um 51,9 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaðurinn dróst saman um rúmlega fjórar milljónir milli ára.

Eigendur Art Medica tóku út 56 milljónir króna í arð vegna ársins 2015. Þetta er mun minna en árið áður þegar greiddur var út arður upp á 265 milljónir króna, en meira en þegar greiddar voru út 44 milljónir króna vegna ársins 2013.

Hluthafar í IVF Iceland voru tveir í árslok 2015, þeir Guðmundur Arason og Þórður Óskarsson, og áttu þeir 50 prósent hlut hvor.

Gjaldskrárhækkanir urðu hjá fyrir­tækinu í september árið 2015. Þá hækkaði glasameðferð um 37 þúsund krónur, úr 376 þúsund krónum í 413 þúsund krónur. Greint var frá því að mikil óánægja væri með hækkanirnar.

Sjá einnig: Gagnrýnir gjaldskrárhækkanir Art Medica

Í desember á síðasta ári var svo greint frá því að sænska fyrirtækið IVF Sverige myndi opna nýja tæknifrjóvgunardeild í Reykjavík, IVF klín­íkin Reykjavík. Fyrirtækið keypti Art Medica og var sú starfsemi lögð niður.

Rekstrartekjur IVF Iceland námu 64 milljónum króna og jukust um fjórar milljónir milli ára. Eignir í árslok námu 94,7 milljónum króna, samanborið við 120,3 milljónir króna árið áður. Eigið fé í árslok var 58,8 milljónir króna, samanborið við 62,9 milljónir árið áður.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×