Innlent

Dæmdur fyrir að skalla mann í andlitið

Atli Ísleifsson skrifar
Úr Héraðsdómi Reykjavíkur.
Úr Héraðsdómi Reykjavíkur. vísir/vilhelm
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt nítján ára karlmann í sextíu daga fangelsi fyrir að hafa skallað mann í andlitið fyrir framan skemmtistaðinn Glaumbar í miðborg Reykjavíkur í desember 2015 með þeim afleiðingum að fórnarlambið nefbrotnaði.

Fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður tveimur árum árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð.

Árásarmaðurinn neitaði sök, en viðurkenndi að hafa ýtt við höfði mannsins með sínu höfði. Sagði hann það þó ekki hafa verið fast og átti nefið fórnarlambsins ekki að getað brotnað við það.

Í skýrslu lögreglu kemur þó fram að árásarmaðurinn hafi skallað brotaþola í andlitið og höggið verið töluvert. Þá segir læknir sem framkvæmdi aðgerð á nefi fórnarlambsins að nefið hafi brotnað í umræddri árás.

„Þegar virtur er framburður læknis, er framkvæmdi aðgerð á brotaþola, og litið til framburðar lögreglumanna á vettvangi, sem og framburðar brotaþola, telur dómurinn hafið yfir allan vafa að ákærði hafi skallað brotaþola, svo sem honum er gefið að sök í ákæru, og að brotaþoli hafi hlotið nefbrot af,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Ákærða var jafnframt gert að greiða brotaþola skaðabætur að fjárhæð 179.886 krónur, ásamt vöxtum og 120 þúsund krónur í málskostnað. Einnig var honum gert að greiða 585 þúsund í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×