Innlent

Nýr yfirmaður við rannsóknir á fíkniefnamálum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá héraðssaksóknara, tekur við stöðu yfirmanns hjá miðlægu deild lögreglunnar.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá héraðssaksóknara, tekur við stöðu yfirmanns hjá miðlægu deild lögreglunnar.
Grímur Grímsson mun taka við starfi yfirmanns hjá miðlægu deildinni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Miðlæga deildin rannsakar stærri og flóknari sakamál, meðal annars fíkniefnamál. Hann tekur við starfinu af Runólfi Þórhallssyni sem snúinn er aftur til starfa hjá sérsveit Ríkislögreglustjóra. Stundin greindi fyrst frá.

Runólfur var fenginn til að leysa yfirmannsstöðuna eftir að Aldís Hilmarsdóttir var færð til í starfi í ársbyrjun um það leyti sem tveir starfsmenn fíkniefnadeildarinnar sættu rannsókn sem gruns um brot í starfi.

Grímur var áður í starfi yfirlögregluþjóns hjá héraðssaksóknara og þar áður hjá sérstökum saksóknara. Aldís hefur sem kunnugt er stefnt íslenska ríkinu og fer fram á milljónir króna í bætur fyrir að hafa verið færð til í starfi.

Annar starfsmaðurinn hefur síðan verið hreinsaður af ásökunum að lokinni rannsókn héraðssaksóknara. Fyrrnefndur Grímur kom við sögu í þeirri rannsókn en hann kom að yfirheyrslum yfir lögreglumönnum í málinu. Hann þurfti þó að segja sig frá rannsókn málsins eftir að athugasemdir frá vitnum sem töldu óeðlilegt að hann hefði kæmi að rannsókninni vegna vinatengsla hans við Aldísi Hilmarsdóttur og Karl Steinar Valsson, nánustu yfirmenn lögreglufulltrúans sem til rannsóknar var.

Mál hins lögreglumannsins er enn á borði ríkissaksóknara og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra í málinu. Sá rannsóknarlögreglumaður er sakaður um að hafa þegið greiðslu frá aðila í undirheimum sem á móti er sakaður um að hafa borið fé á lögreglumanninn. Lögreglumaðurinn sat í gæsluvarðhaldi í nokkra daga vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×