Erlent

Írakskar öryggissveitir á undan áætlun eftir fyrsta dag sóknarinnar að Mosul

Atli Ísleifsson skrifar
Talið er að um 1,5 milljónir manna hafist við í Mosul.
Talið er að um 1,5 milljónir manna hafist við í Mosul. Vísir/AFP
Talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins segir írakskar öryggissveitir vera á undan áætlun eftir fyrsta dag sóknar sinnar að stórborginni Mosul. Stefnt er að því að ná aftur valdi á borginni sem hefur verið á valdi liðsmanna hryðjuverkasamtakanna ISIS frá í júní 2014.

BBC hefur eftir talsmanninum, Peter Cook, að baráttan um borgina gæti tekið langan tíma þar sem óljóst sé hvort ISIS muni veita þeim mikla mótstöðu. Áætlað er að milli fjögur þúsund og átta þúsund liðsmenn ISIS hafist við í Mosul.

Orrustan um Mosul er stærsta einstaka hernaðaraðgerðin í landinu síðan Saddam Hussein var steypt af stóli árið 2003. Bandaríkjaher tekur þátt úr lofti og veitir stuðning í formi ráðgjafar og vopna en í bardögum á jörðu niðri eru aðeins írakskir og kúrdískir hermenn, alls um 30 þúsund talsins.

Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi ISIS, valdi Mosul sem stað til að kynna myndun kalífadæmisins, svo að sögn Cook yrði það mikill táknrænn sigur að ná aftur valdi á borgunni úr höndum ISIS.

„Fyrstu vísbendingar benda til að írakskar öryggissveitir hafi náð markmiðum sínum enn sem komið er og eru á undan áætlun eftir þennan fyrsta dag,“ segir Cook.

Hann segir Bandaríkjaher sannfærðan um að Írakar séu þannig búnir að þeir geti klárað verkið. Bandaríkjaher sé svo reiðubúinn að aðstoða ásamt öðrum bandalagsríkjum.

Kúrdar náðu fjölda smærri þorpa í útjaðri borgarinnar á sitt vald á fyrstu klukkustundum sóknarinnar. Í lok dags sögðust þeir hafa náð valdi á um 200 ferkílómetra svæði, níu smærri þorpum austur af borginni og stóran hluta vegarins milli Irbil og Mosul.

Talið er að um 1,5 milljónir manna hafist við í borginni og er reiknað með að fjölmargir íbúar muni leggja á flótta úr borginni dragist átök á langinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×