Skoðun

Nærsýni

Yngvi Óttarsson skrifar
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, skrifar grein í Fréttablaðið 6. október sl. og leggur út af nýlega birtu áliti Skipulagsstofnunar vegna aukins eldis með norskættaðan eldislax í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Í greininni fer bæjarstjórinn með rangt mál er hann segir að niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi verið „að neikvæð áhrif af sjóeldi séu óveruleg og að öllu afturkræf“.

Hið rétta

Hið rétta er að um hættu á erfðablöndun segir í niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar: „Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur staðfest að á hverju ári strýkur lax í miklu magni úr eldi og að eldisfiskur finnist allstaðar í ám á landsvæðum þar sem eldi í sjókvíum er starfrækt. […] Skipulagsstofnun telur að eftir því sem laxeldi dreifist víðar um firði Vestfjarða og heildarumfang framleiðslunnar vex sé líklegt að hætta aukist á að eldislaxar nái að hrygna í vestfirskum ám og hafi möguleika á að blanda erfðaefni við villtan lax. Stofnunin telur að ef blendingar ná fótfestu í viðkomandi laxastofni verði áhrifin varanleg og óafturkræf.“

Allir villtir stofnar í hættu

Rannsóknir hafa sýnt að eldislax sem sleppur ferðast allt að 2.000 km undan hafstraumum áður en hann leitar upp í ár til hrygningar (L. Hansen, 2006). Það samsvarar ferðalagi stroklaxa einn og hálfan hring umhverfis Ísland. Þar með eru allir villtir laxastofnar landsins í hættu vegna stroklaxa úr eldiskví hvar sem er við landið.

Því er ljóst að framtíðarsýn bæjastjórans um að njóta náttúrunnar og veiða í fallegri á er tálsýn verði fiskeldi í opnun sjókvíum með norskættuðum eldislaxi stundað við Ísland. Eina leiðin til að villtu stofnarnir haldi velli í sátt við fiskeldi er ef það er stundað með sjálfbærum hætti á landi eða í lokuðum kerfum í sjó. Er til of mikils mælst að það sé gert þannig að af starfseminni verði ekki þau varanlegu og óafturkræfu áhrif á náttúru landsins sem Skipulagsstofnun talar um?

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×