Enski boltinn

Chelsea segir að fréttir af mögulegum brottrekstri Conte séu algjört bull

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte.
Antonio Conte. Vísir/Getty
Nokkrir breskir veðbankar hegðuðu sér í dag eins og þeir væru að búast við því að Chelsea ætlaði að reka ítalska knattspyrnustjórann Antonio Conte.

Ekki var lengur hægt að veðja á það að Antonio Conte yrði næsti knattspyrnustjóri ensku úrvalsdeildarinnar sem myndi missa starfið sitt.

Það var ekki hægt að lesa annað úr hegðun veðbankanna að Chelsea ætlaði enn einu sinni að reka knattspyrnustjóra sinn og allt fór á flug á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum.

Sky Sports fór í málið og hefur nú fengið það staðfest úr herbúðum Chelsea að fréttir af mögulegum brottrekstri Conte séu algjört bull.

Antonio Conte hefur aðeins verið á Stamford Bridge í þrjá mánuði og því komu þessar sögusagnir í dag mörgum á óvart.

Chelsea-liðinu gekk þó illa í september-mánuði, náði ekki að vinna deildarleik og tapaði fyrir bæði Liverpool og Arsenal.

Aðeins tvö félög í ensku úrvalsdeildinni eyddu meira í leikmenn í sumar en Chelsea en liðið keypti þá Michy Batshuayi, N'Golo Kante, Marcos Alonso og David Luiz fyrir 116 milljónir punda.

Enskir miðlar hafa skrifað um krísufund Roman Abramovich eftir tapið á móti Liverpool og óánægju Antonio Conte að fá ekki þá leikmenn sem hann vildi fá til liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×