Enski boltinn

Gætu grætt mikinn pening á hinum 33 ára gamla Van Persie

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie og Ryan Giggs.
Robin van Persie og Ryan Giggs. Vísir/Getty
Hollenski framherjinn Robin van Persie gæti farið frá tyrkneska liðinu Fenerbahce í janúar. Tyrkneskir fjölmiðlar fjalla um áhuga á Hollendingnum frá Kína.

Van Persie hefur spilað með Fenerbahce frá því í júlí 2015 þegar Tyrkir keyptu hann frá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United.

Van Persie lék í þrjú tímabil með United en náði ekki alveg að fylgja eftir frábæru fyrsta tímabili þar sem hann var með 26 mörk í 38 leikjum og hjálpaði liðinu að vinna enska meistaratitilinn vorið 2013.

Fenerbahce keypti Robin van Persie á 5,5 milljón evrur fyrir aðeins einu og hálfu ári síðan en nú lítur út fyrir að félagið gæti grætt pening á hinum 33 ára gamla Van Persie í janúar.

Kínverska félagið Hebei Fortune er tilbúið að borga meira en tvöfalt fyrir leikmanninn samkvæmt frétt Fotomac. Það verður því fróðlega að sjá hvort að Tyrkir geti fengið 13 milljónir evra fyrir Van Persie í janúar.

Það eru ekki mörg félög sem náð að græða svo mikinn pening á svo gömlum leikmanni og það er því líklegt að forráðamenn Fenerbahce láti freistast enda 950 milljóna gróði í boði í íslenskum peningum.

Van Persie átti sín bestu ár í ensku úrvalsdeildinni með Arsenal og Manchester United en hann hefur skorað 17 mörk í 35 deildarleikjum með Fenerbahce.

Robin van Persie



Fleiri fréttir

Sjá meira


×