Skoðun

Er hitakerfið tilbúið fyrir veturinn?

Stefán Þór Pálsson skrifar
Öll þekkjum við þá notalegu tilfinningu að koma inn blaut og hrakin úr íslenskum hráslaga inn í heita og notalega íbúð, setjast niður með heitan kaffibolla og finna ylinn leika um kaldan kroppinn. Ekki er jafn notalegt að koma þannig inn í kalda íbúð, allir ofnar rétt volgir og hvergi yl að fá. Þá setjumst við ekki niður heldur hlaupum um alla íbúð fiktandi í hitastillum og öðrum stjórnbúnaði til að koma kerfinu í gang sem oft endar með símtali í píparann.

Vandamálið er að þegar íbúðin er orðin köld þá hækkum við oft vel í kerfinu og aukum þrýstinginn til þess að íbúðin hitni hratt og örugglega og látum þar við sitja, glöð með að vera komin með hita á húsið. Þetta á einnig við um píparann sem oft í fyrstu kuldaköstum haustins, hleypur um borg og bæ til að redda sem flestum, oft með bráðabirgðareddingu og loforði um að koma seinna til að fara almennilega yfir kerfið sem getur síðan gleymst.

Öll viljum við hafa heitt og notalegt inni og okkur hefur verið kennt í gegnum tíðina að við búum við ódýra orku og þess vegna höfum við kannski lagt lítið upp úr því að spara hitaveituvatnið. En á síðustu árum hefur verð á heitu vatni hækkað töluvert og því borgar sig að fara vel með það.

Í útreikningi á hvort íbúðarhús sé með litla eða of mikla eyðslu þá byrjum við á að finna hlutfallstölu út frá rúmmáli húss. Það er rúmmetrar vatns á ári deilt með rúmmáli húss = hlutfallstala. Þumalputtareglan sem við píparar notum er sú að ef hlutfallstalan fer yfir 1.5 þá sé eyðslan orðin of mikil og rétt sé orðið að yfirfara og stilla hitakerfið.

Því miður þá erum við lítt vakandi yfir lagnakerfum okkar og gerum sjaldan nokkuð fyrr en eitthvað bjátar á. Svo sem þegar íbúðin er orðin köld, snjóbræðslan bræðir ekki af sér, aukareikningur kemur frá hitaveitunni o.s.frv. Reglulegt eftirlit og viðhald sparar okkur þessi óþægindi og oft óþarfa kostnað vegna tjóna.

Nú fara haustlægðirnar að streyma yfir landið og skammdegið er að skella á með öllum sínum köldu veðurbrigðum. Er ekki rétt að láta fagmann yfirfara kerfið fyrir veturinn þannig að það virki sem skyldi þegar á reynir.

Ágætis upplýsingar má finna undir Þjónusta og ráð á veitur.is.




Skoðun

Sjá meira


×