Enski boltinn

Skil vel af Allardyce vill ekki tala við mig aftur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sam Allardyce.
Sam Allardyce. vísir/getty
Umboðsmaðurinn Scott McGarvey er niðurbrotinn yfir því að hafa verið valdur að falli Sam Allardyce. Hann er maðurinn sem stóð fyrir fundinum sem felldi stóra Sam.

Hann kynnti Allardyce fyrir fölsku viðskiptamönnunum sem voru í raun blaðamenn á vegum The Telegraph. Fundurinn var myndaður án vitundar Allardyce og félaga. Þau orð sem féllu þar urðu þess valdandi að Allardyce hætti sem landsliðsþjálfari eftir 67 daga í starfi.

„Ég finn svo til með Sam. Þetta er það versta sem hefur gerst í lífi mínu. Honum hlýtur að líða eins og þetta sé allt mér að kenna því ég stóð fyrir þessum fundi,“ sagði McGarvey við Sky Sports.

„Hann hefur þekkt mig lengi og veit að ég myndi aldrei blekkja neinn í fótboltanum viljandi. Ég var samt mjög hissa á því að hann skildi hafa misst starfið hjá enska landsliðinu. Ég mun skilja ef hann vill ekki tala við mig aftur. Ég verð að virða það. Ég vona samt ekki því við höfum þekkst lengi.“

McGarvey hefur ekki heyrt frá Allardyce síðan málið kom upp og hann hefur fullan skilning á því.

„Þetta tekur tíma því ég veit að hann er í sárum eftir að hafa misst vinnuna. Það er brandari að hafa verið látinn hætta eftir einn leik með landsliðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×