Enski boltinn

Mignolet vonast til að endurheimta sæti sitt og byrja gegn United á mánudaginn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Simon á bekknum?
Simon á bekknum? vísir/getty
Simon Mignolet, markvörður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, vonast til að endurheimta sæti sitt í byrjunarliðinu þegar stórleikur áttundu umferðar deildarinnar fer fram á mánudagskvöldið.

Liverpool tekur þá á móti erkifjendunum í Manchester United, en Mignolet byrjaði síðustu tvo leiki Liverpool fyrir landsleikjavikuna á varamannabekknum.

Þjóðverjinn Loris Karius sem Jürgen Klopp sótti til Stuttgart fyrir tímabilið byrjaði leikina gegn Hull og Swansea en Liverpool vann þá báða. Þrátt fyrir að vera kominn á bekkinn er Mignolet vongóður um að standa á milli stanganna gegn United.

„Ég lít bjartsýnn fram á veginn og býst við að spila gegn United. Ég er fullur sjálfstrausts eftir góða byrjun í deildinni. Ég spilaði vel og átti mikilvægar vörslur gegn Arsenal, Tottenham og Leicester,“ sagði Mignolet á blaðamannafundi.

Liverpool er í flottum málum í ensku úrvalsdeildinni eftir fyrstu sjö leikina en liðið er búið að vinna fimm af fyrstu sjö leikjunum og er aðeins tveimur stigum frá toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×