Erlent

Tugir létust í loftárás á Aleppo

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Íbúar í Aleppo stuttu eftir loftárás á Fardous-hverfið í gær.
Íbúar í Aleppo stuttu eftir loftárás á Fardous-hverfið í gær. Nordicphotos/AFP
Rússar segja að um helgina verði gerð ný tilraun til að koma á vopnahléi í Sýrlandi með viðræðum við Bandaríkin. Utanríkisráðherrarnir Sergei Lavrov og John Kerry muni hittast í Sviss ásamt fulltrúum áhrifaríkja í nágrenni Sýrlands.

Loftárásir voru gerðar í gær á stærsta markaðinn á svæðum uppreisnarmanna í Aleppo. Þær kostuðu meira en tuttugu manns lífið.

Sólarhringinn á undan höfðu sprengjuárásir á svæði uppreisnarmanna í borginni kostað meira en 50 manns lífið, að því er fréttastofan Al Jazeera skýrði frá.

Eftir að stutt vopnahlé rann út í sandinn í síðasta mánuði hafa rússneskir og sýrlenskir hermenn linnulítið gert harðar árásir á hverfi uppreisnarmanna. Sýrlensk mannréttindasamtök segja þessar árásir hafa kostað hátt í 400 almenna borgara lífið.

François Hollande Frakklandsforseti sagðist í vikunni vilja draga Rússa fyrir Alþjóðasakadómstólinn í Haag, þar sem réttað verði yfir þeim vegna stríðsglæpa.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hefur tekið undir það. Enginn vafi leiki á því að árásir á almenna borgara séu vísvitandi gerðar: „Það hafa svo oft verið gerðar árásir á sjúkrahús og af svo mikilli nákvæmni að það er erfitt að verjast þeirri ályktun að þetta hljóti að vera vísvituð stefna,“ sagði Johnson í breska þinginu á þriðjudag.

Johnson hvetur almenning til þess að mótmæla fyrir utan rússneska sendiráðið í London.

John Sawers, fyrrverandi yfirmaður bresku leyniþjónustunnar MI6, varar hins vegar við slíkum mótmælum. Hann segir í viðtali við BBC að spennan á milli Rússlands og Vesturlanda sé orðin það mikil, að það minni helst á kalda stríðið.

„Við erum að sigla inn í tímabil sem er jafn hættulegt, ef ekki hættulegra en kalda stríðið vegna þess að það snýst ekki lengur sérstaklega um hernaðarsamskipti stjórnvalda í Washington og Moskvu,“ sagði Sawers.

Rússar saka síðan Boris Johnson um móðursýki og Rússahræðslu. Þetta sé stormur í glasi sem sé fullt af óhreinu Lundúnavatni.

Pútín segist sjálfur vilja góð samskipti við Bandaríkin: „Við höfum áhyggjur af versnandi samskiptum Rússlands og Bandaríkjanna, en það var ekki okkar val, við vildum það aldrei,“ er haft eftir honum á vef rússnesku fréttasíðunnar RT.

Hann kennir meðal annars kosningabaráttunni í Bandaríkjunum um: „Þeir hafa gert Rússland að forgangsmáli alla kosningabaráttuna. Allir eru að tala um Rússland.“ Það sé hvorki gott fyrir Bandaríkin, Rússland né heimsbyggðina alla.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×