Enski boltinn

Hélt í fyrstu að þeir væri að grínast með nýja bannið hjá Guardiola

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero og Pep Guardiola.
Sergio Aguero og Pep Guardiola. Vísir/Getty
Argentínumaðurinn Sergio Aguero hélt í fyrstu að liðsfélagar hans væru að fíflast í sér þegar hann frétti af því að Pep Guardiola væri búinn að loka fyrir internetið á æfingasvæði Manchester City.

Guardiola hefur breytt mörgum hlutum hjá Manchester City síðan að hann tók við liðinu en fáar breytingar hafa vakið meiri athygli.

Leikmenn Manchester City hafa hingað til geta auðveldlega komist á netið í símunum sínum í búningsklefunum og spænski þjálfarinn þótti þeir greinilega eyða of miklum tíma á netinu þegar þeir áttu að vera farnir að einbeita sér að vinnunni.

Fleiri yfirmenn glíma eflaust við svipað vandamál en fáir eru þó tilbúnir að ganga jafnlangt og Pep Guardiola gerði.  

„Þetta er satt. Hann lokaði á internetið. Ég vissi ekkert um það og fór að spyrjast fyrir um það af hverju ég kæmist ekki lengur á netið: Hvað gerðist, höfum við ekki netið hérna?,“ rifjaði Sergio Aguero upp í viðtali við ESPN.

„Ég hélt að liðsfélagarnir væru að stríða mér en þetta var satt. Hann lokaði á internetið,“ sagði Aguero.

„Við höfum ekkert net í klefanum, í nuddherberginu eða í sundlauginni. Það er smá netsamband uppi,“ sagði Aguero.

Búningsklefi Manchester City lokar alveg á umheiminn og þar til Pep Guardiola lokaði á netið var eini möguleiki leikmannanna að komast á netið í símunum í gegnum þrálausa netið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×