Enski boltinn

LIðsfélagi Harðar Björgvins næsti Marcus Rashford?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tammy Abraham fagnar með félögum sínum í enska 21 árs landsliðinu.
Tammy Abraham fagnar með félögum sínum í enska 21 árs landsliðinu. Vísir/Getty
Marcus Rashford sló í gegn með Manchester United á síðasta tímabili en nú telja stuðningsmenn Chelsea að þeir hafa fundið strák sem gæti jafnvel verið Rashford þessa tímabils.

Tammy Abraham nokkur hefur nefnilega farið á kostum með bæði félagsliði sínu og landsliði á þessu tímabili. Abraham er í eigu Chelsea en strákurinn er í láni hjá Bristol City þar sem hann spilar með íslenska landsliðsmanninum Herði Björgvini Magnússyni í ensku b-deildinni.

Hinn 19 ára gamli Abraham var í fyrsta sinn í byrjunarliði enska 21 árs landsliðsins í gær og þakkaði fyrir með því að skora tvisvar sinnum í 5-0 sigri á Bosníu. Tammy Abraham er einnig markahæsti leikmaður ensku b-deildarinnar en hann hefur skorað 8 mörk í 11 leikjum með liði það sem af er á þessu tímabili.

Marcus Rashford hefur lagt það í vana sinn að skora alltaf í sínum fyrsta leik með öllum liðum og skoraði reyndar þrennu í fyrsta leik sínum með 21 árs landsliðinu.

Marcus Rashford er fæddur 31. október 1997 en Tammy Abraham kom í heiminn 2. október sama ár eða aðeins 29 dögum fyrr.

Rashford er því bæði yngri og kominn lengra en Abraham (í enska A-landsliðinu og með Manchester United í ensku úrvalsdeildinni). Stuðningsmenn Chelsea telja sig engu að síður vera komnir með sinn framtíðarframherja á Brúnni.

Sumir stuðningsmenn Chelsea halda því fram að Tammy Abraham sé betri en Marcus Rashford. Þeir geta þó ekki sýnt fram á það fyrr en að strákurinn fer að skora fyrir Chelsea-liðið í ensku úrvalsdeildinni eða að spila fyrir enska A-landsliðið.

Það gerist þó líklega ekki á þessu tímabili því Tammy Abraham er á láni hjá Bristol City út þetta tímabil. 12 mörk í 16 leikjum með félagsliði og landsliði er ekki slæm frammistaða. Það ætti að vera full ástæða til að gefa honum tækifæri sem fyrst með liði Chelsea.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×