Skoðun

Breytt nafnakerfi HÍ skref í rétta átt fyrir trans nemendur skólans

Tony Millington Guðnasson skrifar
Þegar ég byrjaði í háskólanum var það mér mjög mikilvægt að geta breytt nafni mínu innan kerfisins sem fyrst, sem trans einstaklingur í leiðréttingaferli. Ég hikaði við að skrá mig í skólann í fyrstu þar sem ég hafði safnað mér upplýsinga meðal annarra trans einstaklinga um nafnakerfi háskólans. Þau upplýstu mig um að nafnabreytingaferlið hjá Þjóðskrá tæki langan tíma og ekki væri hægt að breyta því í háskólanum án þess. Ég hefði verið mun minna kvíðinn og þunglyndur fyrir að skrá mig í skólann hefði ég getað skráð mig með mínu valda nafni, þrátt fyrir að það væri ekki staðfest hjá Þjóðskrá. 

Við upphaf skólagöngunnar reyndu samskipti mín við kennara innan háskólans í gegnum tölvupóst á mig, þar sem einstaklingurinn sem þeir sáu í tímum hjá sér var strákalegur og kynnti sig sem Tony en notaðist við veffang með stelpunafni. Þetta olli mér hugarangri og ég þurfti ósjaldan að útskýra stöðu mína fyrir kennurunum. 

Það tók mig sjálfan mig tíma til að líða vel í nýja auðkenninu mínu og er það enn í vinnslu. Ég vona að trans einstaklingar sem velja að stunda nám við Háskóla Íslands geti stundað það nám með ánægju og verið þau sjálf á meðan á skólagöngu þeirra stendur, undir því nafni sem þeim líður best með. Ég sjálfur mætti miklum skilning, hjálpsemi og vingjarnleika innan skólans. Einnig naut ég stuðnings frá fjölskyldu minni. Við erum heppin að búa í landi þar sem trans einstaklingar mæta gjarnan jákvæðu hugarfari innan heilbrigðiskerfsins sem og menntastofnana, en það er alltaf rúm til að gera betur. 

Eitt af því er nýja breytingin á nafnakerfi Háskóla Íslands, sem gerir trans nemendum skólans kleift að breyta nafni sínu innan skólans þrátt fyrir að hafa ekki fengið nafnaleiðréttingu í Þjóðskrá. Mín persónulega skoðun er sú að breytt nafnakerfi muni stuðla að bættara andlegu jafnvægi fyrir nemendur sem skilgreina sig undir transregnhlífinni og er skref í rétta átt til að koma til móts við trans einstaklinga innan skólans. 

Greinin er hluti af greinaskriftaátaki Jafnréttisnefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands, í tilefni Jafnréttisdaga háskólanna sem standa yfir dagana 10.-21. október. Dagskrá má finna hér.



Tengdar fréttir

Blóðugar raunir háskólanema

Áttatíu og fjóra daga á ári líður mér eins og líkami minn sé að tortíma sjálfum sér.




Skoðun

Sjá meira


×