Enski boltinn

Warnock kemur með ástríðuna til Arons Einars og félaga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson og félagar þurfa að fara að  vinna fótboltaleiki.
Aron Einar Gunnarsson og félagar þurfa að fara að vinna fótboltaleiki. vísir/getty
Michael Chopra, fyrrverandi framherji Cardiff, er sannfærður um að sitt gamla félag hafi gert hárrétt með því að ráða reynsluboltann Neil Warnock til starfa sem knattspyrnustjóra liðsins.

Cardiff rak Paul Trollope eftir aðeins fimm mánuði í starfi en Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff hafa byrjað illa á tímabilinu og eru í 23. sæti deildarinnar.

Warnock er heldur betur reyndur en Cardiff er 15. félagið sem hann stýrir. Þessi 67 ára gamli þjálfari hefur sjö sinnum komist upp um deild á ferlinum síðan hann byrjaði að þjálfa fyrir 36 árum síðan en hann byrjar á leik gegn Herði Björgvin Magnússyni og félögum í Bristol City á föstudagskvöldið.

„Cardiff þurfti einhvern sem þekkir Championship-deildina og þegar kemur að því að koma liðum upp úr henni er Neil Warnock rétti maðurinn,“ segir Chopra í viðtali við Sky Sports.

„Ég vonast til að hann geti komið Cardiff á rétta braut og komið liðinu aftur í úrvalsdeildina fyrir stuðningsmennina og borgina.“

„Neil er alvöru Yorkshire-maður og svo ákveðinn í öllu sem hann gerir. Liðin hans spila alltaf kraftmikinn og ástríðufullan fótbolta og það vilja stuðningsmennirnir sjá,“ segir Michael Chopra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×