Skoðun

Blóðugar raunir háskólanema

Ingileif Friðriksdóttir skrifar
Áttatíu og fjóra daga á ári líður mér eins og líkami minn sé að tortíma sjálfum sér. Eins og leginu í mér hafi verið snúið ótal hringi í kringum sjálft sig og það gráti rauðum tárum. Stundum veit ég nákvæmlega hvenær þessi ósköp munu eiga sér stað, en á öðrum tímum ákveður líkami minn upp á sitt einsdæmi að breyta út af vananum.

Ég veit að ég er ekki eina manneskjan í heiminum sem hefur lent í því að legið í mér fari að fossa blóði þegar ég á síst á því von. Ég veit það meðal annars vegna þess að ég hef ótal sinnum fengið skilaboð frá vinkonum í neyð. „Ertu í skólanum og með dömubindi eða túrtappa? ÉG ER Í NEYÐ INNI Á KLÓSETTI!!“ sendi vinkona mér á dögunum. Til allrar hamingju var ég skammt frá og gat komið henni til bjargar. Annars hefði hún hugsanlega þurft að troða hálfri klósettpappírsrúllu í nærbuxurnar sínar og eins og gefur að skilja er það ekki ákjósanlegasti kosturinn í stöðunni. Svo við tölum nú ekki um kvíðakastið sem fylgir því að halda stöðugt að blóðblettur myndist í buxunum manns eða á hverjum einasta stól sem maður sest á.

Í dag hefjast Jafnréttisdagar háskólanna, sem standa yfir til 21. október næstkomandi. Af því tilefni hefur Jafnréttisnefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands komið fyrir dömubindum og túrtöppum í körfum á fjölmörgum salernum skólans, óháð kynjamerkingum. Þannig tryggjum við að allir sem það þurfa hafi aðgengi að vörunum. Fólk er allskonar og kynjakerfið sömuleiðis, og það er ekki okkar að ákveða að þeir sem fara á túr noti aðeins konuklósett. Vörurnar verða einnig að sjálfsögðu á salernum fyrir fatlaða. Næstu tvær vikurnar geta nemendur HÍ því verið nokkuð öruggir um að lenda ekki í óheppilegu aðstæðunum sem ég lýsti hér að ofan.

Og hvers vegna eru dömubindi og túrtappar jafnréttismál? Vegna þess að í dag er 24% virðisaukaskattur á dömubindum og túrtöppum á Íslandi, þrátt fyrir að um sé að ræða nauðsynjavörur sem stór hluti fólks í þessu landi neyðist til að fjárfesta í mánaðarlega. Það er jafnréttismál að allir þessir einstaklingar hafi greitt aðgengi að nauðsynjavörum, og að á sama tíma sé ekki verið að skattleggja legið á okkur. Vissulega eru aðrar leiðir færar. Álfabikarinn og taubindi eru til að mynda vistvænni kostir, og vonandi er þróunin í þá áttina að slíkir kostir verði ráðandi. En staðreyndin er hins vegar sú að í dag er stór hluti sem nýtir sér fyrrnefndu kostina. Það er því ekki ólíklegt að einstaklingur sem fer á blæðingar eyði um tíu þúsund króum á ári í hreinlætisvörur vegna þeirra, og tekið skal fram að inni í þeirri tölu er ekki kostnaður við allt súkkulaðið og verkjatöflurnar sem eru bráðnauðsynlegur hluti af ferlinu. Sannkallaðir blóðpeningar!

Hingað til hefur aðgengi að þessum vörum ekki verið neitt í Háskóla Íslands og langar okkur í Jafnréttisnefnd SHÍ með þessu að vekja athygli á því. Á sama tíma viljum við tilkynna að á allra næstu dögum verður túrtöppum komið fyrir í öllum sjálfsölum Ölgerðarinnar í háskólanum, svo nemendur í neyð þurfa ekki að kjaga um í kvíðakasti með hálfa klósettpappírsrúllu í nærbuxunum framar.

Greinin er hluti af greinaskriftaátaki Jafnréttisnefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands, í tilefni Jafnréttisdaga háskólanna sem standa yfir dagana 10.-21. október. Dagskrá má finna hér.




Skoðun

Sjá meira


×