Erlent

Spánverjar hvattir til að neita rússneskum herskipum að taka eldsneyti

Atli Ísleifsson skrifar
Tvö spænsk herskip hafa fylgt Rússunum í gegnum sundið og er búist við þeim til hafnar innan skamms.
Tvö spænsk herskip hafa fylgt Rússunum í gegnum sundið og er búist við þeim til hafnar innan skamms. Vísir/AFP
Stjórnvöld á Spáni eru nú harðlega gagnrýnd fyrir að leyfa rússneska flotanum sem siglir nú áleiðis til Sýrlands með flugmóðurskipið Kuznetsov Aðmírál í broddi fylkingar, að taka eldsneyti í spænsku höfninni Ceuta eftir að skipalestin fór í gegnum Gíbraltarsund snemma í morgun.

Tvö spænsk herskip hafa fylgt Rússunum í gegnum sundið og er búist við þeim til hafnar innan skamms.

Þó gæti svo farið að Spánverjar skipti um skoðun en talsmaður spænska varnarmálaráðuneytisins segir að leyfið sem upphaflega var gefið sé nú til endurskoðunar.

Skipalestin er á leið til Sýrlands til að styðja við loftárásir Rússa, meðal annars í borginni Aleppo.

Þrátt fyrir að Ceuta sé hluti af Evrópusambandinu er staða svæðisins, sem er á norðurströnd Aríku, innan NATO óljós. Frá árinu 2011 hafa sextíu rússnesk herskip lagst að höfn í Ceuta.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur varað við að rússnesk herskip kunni að verða notuð í árásum á óbreytta borgara í Sýrlandi.

Uppfært 10:38:

Sky News greinir frá því að rússnesku herskipin hafi siglt framhjá Ceuta á leið sinni austur í Miðjarðarhafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×