Erlent

ISIS-liðar hefna sín á Kúrdum

Samúel Karl Ólason skrifar
Öryggissveitir Kúdra að störfum í Kirkuk.
Öryggissveitir Kúdra að störfum í Kirkuk. Vísir/AFP
Vígamenn Íslamska ríkisins réðust á opinberar byggingar í Kirkuk í Írak í morgun. Minns sex lögregluþjónar og 16 borgarar létu lífið í árásunum. Þá voru tólf vígamenn felldir.

Meðal þess sem ráðist var á voru lögreglustöðvar, hótel og orkuver. Minnst þrjár bílasprengjur voru sprengdar.

Samkvæmt BBC heyrðust skothvelli enn í borginni nokkrum klukkustundum eftir að árásirnar hófust. Ríkisstjóri Kirkuk segir að árásirnar hafi verið framkvæmdar af vígamönnum sem hafi farið leynt í borginni um einhvern tíma. Þá sagðist hann telja að einhverjir vígamannanna hafi komið með flóttamönnum frá Mosul.

Kúrdar spila stórt hlutverk í orrustunni um Mosul, helsta vígis ISIS í Írak.

Kirkur er mikilvæg borg þar sem mikil olíuframleiðsla fer fram. Peshmerga sveitir Kúrda tóku borgina sumarið 2014 eftir að írakski herinn flúði undan sókn Íslamska ríkisins.

Lögreglustjóri Kirkuk segir Rudaw fréttaveitunni að ljóst sé að einhverjir íbúar Kirkuk hafi aðstoðað vígamennina. Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í borginni og fara öryggissveitir um hana í leit að fleiri vígamönnum. Vopnaðir borgarar hafa komið sveitunum til aðstoðar. 

Bein útsending frá Kirkuk



Fleiri fréttir

Sjá meira


×