Robin van Persie, framherji Fenerbache, segir mögulegt að hann væri enn í herbúðum Manchester United ef Sir Alex Ferguson hefði haldið áfram að stýra liðinu.
Van Persie mætir aftur á sinn gamla heimavöll, Old Trafford, í kvöld þegar Man Utd tekur á móti Fenerbache í Evrópudeildinni.
Man Utd keypti Van Persie frá Arsenal sumarið 2012 og Hollendingurinn átti frábært fyrsta tímabil með liðinu; skoraði 30 mörk í öllum keppnum og hjálpaði Man Utd að vinna sinn tuttugasta Englandsmeistaratitil.
Eftir tímabilið settist Ferguson í helgan stein en sú ákvörðun hafði mikil áhrif á Van Persie sem vonaðist til að geta unnið lengur með Skotanum.
„Við vitum aldrei. Ég gæti enn verið leikmaður Man Utd í dag. Þegar ég samdi við var hugmyndin að Sir Alex yrði áfram við stjórnvölinn hjá liðinu í nokkur ár til viðbótar. En hlutirnir breytast í fótboltanum; þú getur ekki planað þína vegferð né stjórans,“ sagði Van Persie á blaðamannafundi fyrir leikinn í kvöld.
Hollenski framherjinn skoraði alls 58 mörk í 105 leikjum fyrir Man Utd áður en hann var seldur til Fenerbache sumarið 2015. Hann skoraði 22 mörk á sínu fyrsta tímabili í Tyrklandi.
Leikur Man Utd og Fenerbache hefst klukkan 19:00 í kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD.
Van Persie: Væri mögulega enn hjá Man Utd ef Ferguson hefði ekki hætt
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið

„Hann hefði getað fótbrotið mig“
Enski boltinn


VAR í Bestu deildina?
Íslenski boltinn


Howe lagður inn á spítala og missir af leiknum
Enski boltinn




