Innlent

Oddný: Samfylkingin tekur ekki þátt í næstu ríkisstjórn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Oddný Harðardóttir, fráfarandi formaður Samfylkingarinnar, kom á fund til forseta Guðna Th. Jóhannessonar rétt fyrir klukkan 16 í dag en hún var sá sú sjöunda og sú síðasta í röðinni til að mæta á Bessastaði til að ræða komandi stjórnarmyndunarviðræður.

Gaf hún sér tíma til að ræða við fjölmiðlamenn á Bessastöðum að loknum fundi þeirra áður en að hún las upp yfirlýsingu þess efnis að hún myndi segja af sér sem formaður Samfylkingarinnar og að Logi Einarsson varaformaður myndi taka við.

Í spjalli sínu við fjölmiðlamenn kom fram að Samfylkingin myndi ekki taka þátt í þeirri ríkisstjórn sem mynduð verður.

„Við erum ekki að fara í ríkisstjórn, það er augljóst. Við munum styðja öll góð mál. Verði möguleiki á einhversskonar umbótastjórn munum við styðja hana,“ sagði Oddný en hún var einnig spurð að því hvort að Samfylkingin myndi verja minnihlutastjórn VG, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar falli ásamt Pírötum líkt og Píratar hafa lagt til.

„Við getum vel hugsað okkur að styðja slíka stjórn sem væri mynduð af stjórnarandstöðunni ásamt Viðreisn. Auðvitað ekki blindandi, við myndum vilja sjá um hvað slíkir flokkar myndu gera sáttmála en það er mjög líklegt að við myndum styðja slíka stjórn og verja hana falli.“

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur tilkynnt að hann muni halda viðræðum sínum við forystufólk flokkanna áfram á morgun með það fyrir augum að taka afstöðu til veitingar umboðs til stjórnarmyndunar á næstu dögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×